132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar.

182. mál
[15:24]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að fá að endurtaka fyrirspurnina sem upp var borin. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Hefur ráðuneytið styrkt fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar? Ef svo er, hversu háir hafa styrkirnir verið sl. fimm ár, sundurliðað eftir árum og stofnunum, og til hvaða verkefna fóru þeir?“

Ég endurtek spurninguna vegna þess að eins og ég sagði í svari mínu fer ég ekki með þessi mál, það er hæstv. menntamálaráðherra sem fer með málefni símenntunarmiðstöðva. En vegna þess hversu mikilvægt byggðamál þetta er, og ég tek undir það sem kom fram í umræðunni hvað það varðar, höfum við lagt fjármagn á móti menntamálaráðuneytinu í þennan málaflokk, 300 milljónir, og ég tel það hafa verið mikilvægt. Ég held að ekki sé hægt að tala um að verið sé að mjatla peningum, þetta eru peningar sem skipta verulega miklu máli á landsbyggðinnni.

Ég geri mér grein fyrir að þetta er málaflokkur sem þarf að efla frekar en hitt og hvað varðar lagarammann þá hlýtur hæstv. menntamálaráðherra að fjalla um hann, ég tel mér ekki skylt eða að ég eigi í raun ekki að að fjalla um hann hér vegna þess að hann heyrir ekki undir ráðuneyti mitt.

Þær tillögur sem koma fram og það sem við höfum sett niður í samkomulagi okkar eru tillögur sem koma frá menntamálaráðuneytinu þar sem fagþekkingin er þar. Ég efast ekki um að þar er vilji til að gera eins gott úr þessu og kostur er. Um er að ræða 30 millj. kr. vegna samningsins auk þeirra fjármuna sem koma á fjárlögum hvers árs.

Ég held að umræðan hafi engu að síður verið mikilvæg þó að hún hefði kannski átt að eiga sér stað að einhverju leyti gagnvart hæstv. menntamálaráðherra. Málið hefur þó a.m.k. verið reifað hér og mér finnst allir vera sammála um að þarna sé um mikilvæga starfsemi að ræða sem eigi að efla frekar en hitt og ég tek eindregið undir það.