132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Reykjavíkurflugvöllur.

[15:31]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs utan dagskrár til að ræða framtíð Reykjavíkurflugvallar. Ástæðan fyrir að ég geri það er að ég tel það mjög mikilvægt að fram fari málefnaleg umræða um hann og framtíð flugs í landinu. Nú vitum við að umræðan hefur svo sannarlega verið til staðar en hún hefur kannski oft verið á þeim nótum að menn hafa farið í skotgrafir annaðhvort fylgjandi því að hafa flugvöll í Vatnsmýrinni eða andstæðir, og ég er ekki alveg viss um að besta leiðin til þess að ná góðri niðurstöðu sé að nálgast hlutina með þeim hætti. Það er að sjálfsögðu sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna að hér séu góðar flugsamgöngur, bæði milli landa og sömuleiðis innan lands.

Kostirnir við að flytja flugvöllinn eru augljósir. Það segir sig sjálft að hér er um mjög verðmætt land að ræða í hjarta borgarinnar og við mundum án nokkurs vafa geta byggt hér upp enn betri borg með því að nýta það svæði undir annað en flugvöll. Á sama hátt eru augljósir gallar við að flytja flugvöllinn þar sem það mundi skaða innanlandsflugið og samgöngur á landinu þyrftu að taka miklum breytingum til þess að ná þeirri stöðu sem uppi yrði ef flugvöllurinn færi og einnig þyrftum við að bæta mjög samgöngur til Vatnsmýrarinnar ef við værum þar með öfluga íbúabyggð.

Þegar ég lít á þetta mál sé ég nokkrar forsendur. Í fyrsta lagi held ég að nauðsyn þess að hafa varaflugvöll nálægt Keflavíkurflugvelli sé alveg ljós og einnig viljinn til þess. Ástæðan er fyrst og fremst öryggissjónarmið. En síðan og ekki síður er hér um mikilvægan þátt að ræða fyrir þá flugrekstraraðila sem starfa hér á landi. Þeir hafa mikla fjárhagslega hagsmuni af því að þurfa ekki að nota eins mikið eldsneyti og þeir þyrftu að gera ef flugvöllurinn væri ekki jafnnálægt Keflavíkurflugvelli.

Í annan stað hlýtur það að vera hagsmunamál að hafa innanlandsflugið sem næst miðju Reykjavíkurborgar og ég held að þeir aðilar sem starfa á þeim vettvangi séu sammála um það.

Í þriðja lagi er ljóst að flugvöllurinn fer ekki strax, jafnvel þó að vilji væri fyrir því. Það liggur fyrir að fyrrv. borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, samdi við núverandi samgönguráðherra um að hafa flugvöllinn til ársins 2016 og í skipulagi Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir að hann verði til 2024. Þó svo að hægt sé að breyta þessu þá liggur það fyrir að ætli menn að færa flugvöllinn fyrir 2016 þá þurfa tveir aðilar að komast að þeirri niðurstöðu.

Í fjórða lagi held ég að það liggi fyrir að rekstrarkostnaður í tengslum við flugvöll er ekki svo ýkja mikill. Hér er fyrst og fremst um fjárfestingarkostnað að ræða. En það er orðið ljóst, sérstaklega eftir að lóðaverð hefur hækkað svo mikið í Reykjavíkurborg sem raun ber vitni, að það eru orðin mun meiri verðmæti í Vatnsmýrinni núna en áður var og væri örugglega hægt að fjármagna uppbyggingu á nýjum flugvelli með lóðasölu á þeim stað.

Í fimmta lagi liggur það fyrir að mjög mikil aukning hefur orðið á flugi og að farþegum hefur fjölgað mikið í Keflavík. Farþegar eru núna um 1,4 milljónir og hefur fjöldinn aukist jafnt og þétt á hverju einasta ári. Álagstímar eru samt ekki svo margir, kannski tveir á sólarhring í Keflavík, en það liggur þó fyrir að menn eru nú þegar farnir að huga að stækkun flugstöðvarinnar vegna þess að umferð um hana er svo mikil.

Í sjötta lagi liggur alveg fyrir að það verður aldrei millilandaflugvöllur í Vatnsmýrinni. Og í rauninni erum við í þeirri sérstöku stöðu að við erum með þessa stóru fjárfestingu þar sem við munum frekar reyna að ýta frá umferð en að fá hana til okkar. Þá er ég að vísa í snertilendingar, kennsluflug og annað því um líkt.

Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort það sé ekki rétt í þessu máli að skoða það, og þá er ég að vísa til lengri tíma, hvort ekki sé hreinlega þörf fyrir annan millilandaflugvöll á suðvesturhorninu. Reykjavíkurflugvöllur er fyrst og fremst innanlandsflugvöllur og varaflugvöllur en ég velti því fyrir mér hvort við ættum að skoða það í þessu samhengi, þegar við erum að fara í gegnum hagkvæmnisathuganir í tengslum við þetta, hvort á næstu árum, ég tala ekki um áratugum, sé þörf fyrir annan millilandaflugvöll.

Ég vil því beina þrem fyrirspurnum til ráðherra:

1. Nú liggur fyrir að þær ákvarðanir sem teknar eru í tengslum við flug eru langtímaáætlanir sem hafa áhrif áratugi fram í tímann. Telur ráðherra að ekki gæti verið sóknarfæri fyrir íslenska ferðaþjónustu að fá annan millilandaflugvöll á suðvesturhornið?

2. Er ekki eðlilegt að skoða það í tengslum við þær hagkvæmnisathuganir sem nú fara fram að fá annan millilandaflugvöll á suðvesturhornið?

3. Er ekki eðlilegt í því ljósi að taka staðsetningu flugvallar á Miðdalsheiði inn í hagkvæmnisathuganir ráðuneytisins?