132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Reykjavíkurflugvöllur.

[15:42]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Framtíðarmúsík Sjálfstæðisflokksins í flugvallarmálunum er fölsk. Það var sérkennilegt að hlusta á fulltrúa Sjálfstæðisflokksins ræða um málefni flugvallarins í Vatnsmýrinni hérna á undan mér, flugvöllurinn er sem sagt ekkert að fara en hann á bæði að vera og fara og síðan á að byggja annan millilandaflugvöll nokkra kílómetra frá Keflavík. Þetta var svona megininntakið í málflutningi sjálfstæðismanna að loknum landsfundi hér í umræðunum áðan.

Það blasir við, virðulegi forseti, að þegar Reykjavíkurflugvöllur fer úr Vatnsmýrinni fer hann til Keflavíkur. Það væri sóun á almannafé að byggja upp annan flugvöll annars staðar á suðvesturhorninu. Við munum aldrei byggja þennan flugvöll ef rekstri núverandi flugvallar í Vatnsmýrinni verður hætt. Flugið færist til Keflavíkur og verður rekið með millilandaflugvellinum sem þar er fyrir og við öxlum sífellt meiri byrðar við rekstur hans. Þegar flugvöllurinn fer þá fer hann til Keflavíkur, annað er sóun á fjármunum og kemur örugglega aldrei til greina þó að ýmislegt annað heyrist þegar hitamælarnir stíga upp í prófkjörum reykvískra sjálfstæðismanna þar sem nú fer fram harður slagur um oddvitastöðu minni hlutans í borginni.

Undir þetta sjónarmið tók hæstv. samgönguráðherra á fundi þar syðra á dögunum og sagði: „Keflavík er eini kosturinn ef flugvöllurinn fer úr mýrinni.“ Nú opnar hæstv. ráðherra hins vegar á, samkvæmt umræðum hér áðan og af landsfundarfréttum sjálfstæðismanna, að skoða beri aðra kosti. Hann segir nú að fari flugvöllurinn sé Keflavík ekki sá sjálfsagði kostur sem hann sagði hann vera á dögunum.

Þessi hringlandaháttur hæstv. ráðherra er í besta falli furðulegur og maður hlýtur að spyrja sig hvort það hafi ekkert verið að marka yfirlýsingar hæstv. ráðherra á fundinum syðra. Eða kollvarpar prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík öllum fyrri yfirlýsingum sjálfstæðismanna um Reykjavíkurflugvöll? Keppinautarnir um fyrsta sætið í prófkjörinu hamast nú við að lýsa því yfir að flugvöllurinn skuli víkja þó að þær heitstrengingar hafi líklega útvatnast í því litlausa moði sem samþykkt var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) um málefni Vatnsmýrarinnar.