132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Reykjavíkurflugvöllur.

[15:44]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn hefur skýra stefnu varðandi flugvallarmál hér í Reykjavík. Við teljum að miðstöð innanlandsflugs eigi að vera áfram í Reykjavík, það segir í höfuðborgarstefnu okkar. Við viljum láta skipuleggja flugvallarsvæðið þannig að landið sem fer undir flugvöllinn minnki en við viljum ekki ýta flugvellinum úr Reykjavík.

Að sjálfsögðu eru bæði kostir og gallar við það að hafa flugvöllinn í Reykjavík, en að okkar mati eru kostirnir mun fleiri. Maður verður að spyrja sig að því: Er ekki líklegt að innanlandsflugið leggist meira eða minna af ef flugvöllurinn fer úr Reykjavík og er það framtíðarsýnin sem við viljum sjá? Ég held að svo sé ekki. Það er mikilvægt að hafa öflugt innanlandsflug bæði fyrir landsbyggðina en líka fyrir fólkið á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil þar að auki benda á að það eru flugvellir inni í borgum annars staðar, t.d. London City Airport, það eru talin gæði að hafa flugvöll í borg. Það getur farið saman að hafa öfluga borg og öflugan flugvöll inni í borginni.

Það má heldur ekki gleyma því að við höfum ákveðnum skyldum að gegna gagnvart sjúklingum þessa lands og sjúkraflug á Íslandi er ansi viðamikið. Árið 2004 flugu 381 sjúklingur með sjúkraflugi og þá er ég ekki að tala um þyrlurnar, bara sjálft sjúkraflugið. Þetta var þannig að það komu 50 frá Vestmannaeyjum, 160 frá Austurlandi, 100 frá Norðurlandi eystra og 40 frá Vestfjörðum, þetta er því umfangsmikið sjúkraflug. Það er talað um svokallaða gullnu klukkustund, „The Golden Hour“ þannig að ef flutningur á bráðveiku fólki fer mikið yfir klukkutíma minnka mjög mikið líkurnar á að það fólk hafi það af. Við skulum því ekki gleyma því að við erum að byggja upp glæsilegt hátæknisjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu, sem nýlega var kynnt í samkeppni, og það er mikilvægt að sjúkraflugið verði áfram öflugt. Það hníga því öll rök að því að Reykjavíkurflugvöllur verði (Forseti hringir.) áfram í Reykjavík.