132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Reykjavíkurflugvöllur.

[15:46]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni hefur verið umdeildur allt frá því að Bretar settu hann niður á hernámsárunum. Í gegnum tíðina hafa komið fram háværar kröfur um að hann verði aflagður, fyrst af öryggisástæðum, en í dag er krafan frekar byggð á verðmæti landsins sem byggingarlands.

Þriðjungur Vatnsmýrarinnar hefur þegar verið skipulagður og með uppbyggingu tveggja flugbrauta hefur helgunarsvæði brautanna takmarkast mjög. Samkvæmt samgönguáætlun verður innanlandsflugið á núverandi stað næstu árin og því brýnt að vinna hið fyrsta að nýrri og sómasamlegri þjónustumiðstöð fyrir farþega samkvæmt fyrirliggjandi tillögu.

Flugsamgöngur skipa æ stærri sess í öllu samgöngukerfinu. Því er staðsetning innanlandsflugsins í Vatnsmýrinni ekki eingöngu spurning um deiliskipulag svæðisins og mál Reykvíkinga, heldur starfsemi sem snertir alla landsmenn. Það að flytja innanlandsflugið krefst uppstokkunar í heilbrigðisþjónustu og stjórnsýslu. Í sjúkraflutningi bráðveikra sjúklinga skiptir tíminn miklu máli og staðsetning flugvallarins við lóðamörk Landspítala – háskólasjúkrahúss og síðar hátæknisjúkrahúss veitir mikið öryggi. Lengri ferðatími kallar á endurskipulagningu heilbrigðisþjónustunnar og frekari uppbyggingu bráðaþjónustu víða um land.

Sama á við um stjórnsýsluna. Lengri ferðatími kallar á aukna þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Allar hugmyndir um að byggja nýjan flugvöll á uppfyllingum úti í sjó ætti að leggja til hliðar þar sem taka verður alvarlega spár um hækkun sjávarborðs. Við erum hér á virku eldfjallasvæði og í því sambandi er flugvöllurinn mikið öryggisnet fyrir höfuðborgarbúa. Af sömu ástæðu og vegna aukins millilandaflugs verður að fullgera flugvellina á Egilsstöðum og Akureyri sem alþjóðaflugvelli. En með því að takmarka umferð á Reykjavíkurflugvelli að mestu við innanlandsflugið, flytja æfingasvæði og þjónustu við litlar flugvélar ásamt flugvallarskýlum burt af svæðinu, næst frekari sátt um starfsemi og staðsetningu flugvallarins.