132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Reykjavíkurflugvöllur.

[15:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er góðra gjalda vert að hvetja menn til að stíga upp úr skotgröfunum í þessu mikla deilumáli eins og hv. málshefjandi Guðlaugur Þór Þórðarson leggur til og ég vil taka undir orð hans hvað það snertir. Hins vegar verður ekki fram hjá því horft að hér er um að ræða mikið deilumál. Menn deila um grundvallaratriði og miklar tilfinningar eru í þessum deilum. Menn horfa til hagsmuna innanlandsflugsins, um 360 þúsund manns nýta sér innanlandsflugið á ári hverju. Menn horfa til atvinnuhagsmuna bæði hér og í Keflavík og annars staðar. Talið er að flugvellinum tengist 500 störf, 1.200 þegar afleidd störf eru einnig skoðuð. Síðan horfa menn til hagsmuna landsbyggðarinnar. Spurningin er hvort við getum alhæft um það efni.

Þannig eru það hagsmunir þeirra sem starfa innan stjórnsýslu og fyrirtækja að komast skjótt til höfuðborgarinnar á fundi og síðan fyrir þá sem fara út á land að komast skjótt á milli. En það eru aðrir hagsmunir líka. Það eru hagsmunir þess fólks sem fer til Keflavíkur á leið til útlanda og það eru hagsmunir þess að geta lent þar. Ég held að reyndin verði sú að Reykjavíkurflugvöllur muni flytja sig sjálfur að verulegu leyti til Keflavíkur. (Gripið fram í.) Það eru ákveðnar staðreyndir sem við þurfum að horfa á. Það var atkvæðagreiðsla í Reykjavík, að vísu tók aðeins þriðjungur eða rúmlega þriðjungur borgarbúa þátt í henni. Allir áttu kost á að taka þátt. Meiri hlutinn var því fylgjandi að flugvöllurinn yrði fluttur. Ekkert gerist hins vegar á allra næstu árum. Það er ekki fyrr en á árabilinu 2016–2024 sem breytingar (Forseti hringir.) gætu átt sér stað. En þar sem tími minn er þorrinn vil ég taka undir með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að við ræðum framtíð innanlandsflugsins á Íslandi.