132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Reykjavíkurflugvöllur.

[15:58]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að flestir þingmenn sem hafa komið upp hafa lýst skoðun sinni og skilningi á því að það sé mikilvægt að hafa flugvöll á Reykjavíkursvæðinu, á höfuðborgarsvæðinu. Ég tek eftir því að sumir fulltrúar flokkanna hafa aðra skoðun hér sem þingmenn en fulltrúar þeirra í borgarstjórn höfðu þann 20.september sl. en þá greiddu allir flokkar atkvæði gegn tillögu Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa F-listans, um að borgarstjórn tryggði áframhald innanlands-, öryggis- og sjúkraflugvallar á höfuðborgarsvæðinu og að ekki kæmi til greina að flytja Reykjavíkurflugvöll til Keflavíkur eins og nú standa sakir.

Ef menn verða svo skammsýnir að fá því ráðið að flytja Reykjavíkurflugvöll tel ég næsta víst að hann endi í Keflavík. Ég sé ekki fyrir mér, hæstv. forseti, að menn byggi upp annan flugvöll sem geti tekið við sem varaflugvöllur fyrir millilandaflugið einhvers staðar í nágrenni Reykjavíkur ef færa á flugvöllinn algjörlega út af þessu svæði, og þá er ég að tala um höfuðborgarsvæðið og nálægt miðborg Reykjavíkur. Það er hins vegar kostur að færa flugbrautirnar eitthvað til, út í Skerjafjörðinn, en það er þá hins vegar músík sem tekur við einhvern tíma eftir árið 2016 eða jafnvel eftir 2024. Ég ætla að vona að menn skynji það hversu mikilvægur Reykjavíkurflugvöllur er fyrir landsbyggðina, hversu miklu máli skiptir að hann sé hér sem sjúkraflugvöllur og öryggisflugvöllur. Það er t.d. alveg ljóst að Landhelgisgæslan þarf á varaflugvelli að halda nálægt Reykjavík (Forseti hringir.) þó að flugið yrði flutt til Keflavíkur. Öðruvísi styttist öryggisstig Gæslunnar verulega.