132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Viðræður um framtíð varnarliðsins.

[10:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Samkvæmt fréttum í gærkvöldi og í morgun virðist hafa orðið alger uppstytta í fyrirhuguðum samningaviðræðum íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framtíð eða kannski á öllu heldur að segja ekki framtíð herstöðvarinnar í Keflavík. Málið blasir þannig við formanni bandarísku viðræðunefndarinnar að Íslendingarnir hafi einfaldlega hætt við að mæta á fundinn sem þeir voru þó komnir vestur um haf til að sækja. Þeir voru komnir til Washington svo ekki var það það að þeir kæmust ekki á fundinn, segir hann.

Í útvarpsviðtali í vikunni var utanríkisráðherra hins vegar bjartsýnn. Málið klárast nú e.t.v. ekki á þessum fundi, heyrði ég með mínum eigin eyrum utanríkisráðherra segja og bjóst hann þar greinilega við miklum árangri af fundinum.

Í fréttaflutningi af málinu kemur fram að ástæða fýluferðarinnar til Washington séu hugmyndir Bandaríkjamanna um kostnað sem séu allt aðrar og miklu hærri en þær sem Íslendingar hafi hugsað sér, óraunsæjar segir í Morgunblaðinu. Samkvæmt fréttum virðist hins vegar ekki hafa verið rætt um að þoturnar margfrægu, þessar fjórar, færu í burtu, þessar þotur sem íslensk stjórnvöld hafa hengt sig á að séu nauðsynlegar hér vegna loftvarna og þá er spurningin: Snerist þetta þá um peninga eftir allt saman en ekki loftvarnir? Eru íslensk stjórnvöld á hnjánum frammi fyrir bandarískum að biðja um áframhaldandi og mikil tilgangslaus hernaðarumsvif hér á landi peninganna vegna?

Og loks um framhaldið. Hvert verður það? Verður þá áfram óbreytt ástand, að óvissan hangi þarna yfir og samdrátturinn og ákvarðanirnar um fyrirkomulag mála í Keflavík ráðist alfarið af einhliða ákvörðunum Bandaríkjamanna? En þannig hefur það verið. Er kannski kominn tími til að íslensk stjórnvöld horfi í eigin barm og viðurkenni hversu arfavitlausa pólitík þau hafa rekið í þessum viðræðum, fyrir utan hvað hún er niðurlægjandi fyrir þjóðina?