132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Viðræður um framtíð varnarliðsins.

[10:41]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir upplýsingarnar. Einnig er áhugavert að sjá að hæstv. forsætisráðherra er hér viðstaddur en kýs ekki að blanda sér í umræðuna enn sem komið er a.m.k. En sú var tíðin að forsætisráðherra ríkisstjórnar tók gjarnan yfir þennan málaflokk þegar mikið lá við, eins og menn muna þegar hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, tók málið að sér þegar það var komið að hans mati í nokkurn hnút hér á vordögum 2003 og fór með það nokkuð síðan. En kannski er aftur ný verkaskipting uppi að utanríkisráðherrann sé utanríkisráðherra í málinu og forsætisráðherra leiði það þá hjá sér.

Ég vil láta koma fram að ég óskaði einnig eftir því að utanríkismálanefnd fengi fund og fengi hæstv. utanríkisráðherra sem fyrst til viðtals til að fara yfir málið þar, eftir atvikum þá í trúnaði að því marki sem hæstv. utanríkisráðherra telur málið svo viðkvæmt að það megi ekki ræða það frammi fyrir alþjóð.

Ráðherrann ræddi fyrst og fremst um rekstrarkostnað flugvallarins í Keflavík. Er það mál ekki tiltölulega einfalt? Ef herinn fer þá rekum við Íslendingar auðvitað okkar millilandaflugvöll, og erum væntanlega menn til þess. Ég held að málið snúist um meira en það. Ég held að það snúist ekki um þann kostnað, enda er það auðvitað ekki ofverkið okkar að reka eitt stykki millilandaflugvöll. Málið snýst um að íslensk stjórnvöld eru að rembast við að reyna að halda í sem mest umsvif í herstöðinni í Keflavík að því er virðist fyrst og fremst peninganna vegna. Það er dapurlegt að standa frammi fyrir því og þegar aðstæður eru orðnar þær að Bandaríkjamenn vilja fara, að allir helstu sérfræðingar og fræðimenn á þessu sviði segja: Þróunin er í þessa átt. Hefðbundnar gamaldags herstöðvar Bandaríkjamanna í Vestur-Evrópu eru allar að hverfa nema með örfáum undantekningum þar sem stöðvar eru í algeru lykilhlutverki eins og Ramstein, þá eru það íslensk stjórnvöld sem eru á hnjánum til að biðja um þessi tilgangslausu hernaðarumsvif hér. Þvílíkt endemi. Dapurlega ætlar þessari sögu hernámsins að ljúka.