132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Þróun matvælaverðs.

[10:45]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Samfylkingin telur að lækkun matarverðs komi öllum til góða, ekki bara útvöldum hópum eins og þeim sem skattalækkanir ríkisstjórnarinnar beinast að. Viðhorf ríkisstjórnarinnar til lækkunar á matarverði er á reiki. Hjá ríkisstjórninni er lækkun matarverðs ekki forgangsmál.

Árið 2001 sýndi skriflegt svar ráðherra Hagstofunnar við fyrirspurn Samfylkingarinnar að samanburður á þróun matvælavísitölu á Norðurlöndunum við Evrópusambandið frá 1990 til ársins 2001 var Íslendingum afar óhagstæður. Þó stjórnarliðar og hagsmunaaðilar vefengdu og andmæltu í þeirri umræðu leiddi áframhaldandi umfjöllun um matarverðið staðreyndir í ljós.

Undirrituð, ásamt þingmönnum Samfylkingarinnar, lagði fram sem fyrsta mál á haustþingi árið 2002 tillögu til þingsályktunar um að ríkisstjórnin leitaði orsaka mismunandi matvælaverðs á Norðurlöndum og í ríkjum Evrópusambandsins. Skoðuð yrðu skilyrði sem matvælaframleiðslu og matvöruverslun væru búin og samanburður gerður á matvöruframleiðslu og verslunarháttum á Norðurlöndum og í ríkjum Evrópusambandsins og hvort ólík tenging landanna við Evrópusambandið hefði þarna áhrif. Samanburður fylgdi úr skýrslum Hagstofu á verðlagi á Norðurlöndum og meðalverði í Evrópu sem sýndi allt að 69% hærra matarverð hér.

Tillaga okkar var samþykkt hér á Alþingi og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var falið verkefnið. Reyndar var því sleppt að kanna þátt aðildar að Evrópusambandinu á mismunandi matarverð á Norðurlöndum en skýrslan var góð.

Fyrsta þingmál Samfylkingarinnar eftir síðustu kosningar var tillaga um lækkun virðisaukaskatts á matvæli úr 14 í 7%. Tillagan var endurflutt á síðasta þingi árangurslaust. Lækkun virðisaukaskatts á mat er auðvitað hluti aðgerða sem grípa þarf til ef ná á niður matarverðinu. Verðstríðið í vetur, aðgerðir með grænmetisverð, sem voru mjög jákvæðar, og gengi krónunnar hafa haft áhrif til tímabundinnar lækkunar en engan veginn í takt við hækkað gengi.

Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans, sem staðfesti upplýsingar Samfylkingarinnar um matarverðið og hugmyndir um aðgerðir til verðlækkunar, var loks lögð fram á síðustu dögum vorþings 2004 en fékkst því miður ekki rædd á Alþingi. Því ákvað undirrituð að bera fram fyrirspurnir til skriflegs svars til þeirra ráðherra er ábendingar beindust til og bárust því miður rýr svör.

Varðandi það að styðja landbúnaðinn með beinum greiðslum í stað tolla — hvaða vinna væri í gangi í ráðuneytum til að lækka eða fella niður tolla af innfluttum vörum, hvort ráðherra telji ríkisstuðning fyrirsjáanlegri og sýnilegri með beinum greiðslum í stað tolla, hvort slíkt sé til skoðunar í ráðuneytinu — vísuðu bæði fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra til viðræðna á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og/eða til fríverslunarviðræðna eða að ekki væri unnt að leggja mat á málið. Engin vinna í gangi.

Um könnun á að hvaða marki matvara lækkaði með hækkuðu gengi, um eftirlit með að gengisbreytingar skiluðu sér til neytenda, hvort fákeppni á matvörumarkaði hefði áhrif á matarverð vísaði viðskiptaráðherra til Neytendasamtakanna, greinargerða ASÍ og verkefna Samkeppnisstofnunar. Engin vinna í gangi. Um hvort fyrir liggi samanburður á stærð verslunarhúsnæðis við nágrannalönd, hvort meira sé fjárfest hér og þá mat á hvort það skili sér út í matarverð hér fengust engar upplýsingar. Óskoðað. Um afstöðu viðskiptaráðherra til þess að birgðahús yrðu skyldug til að bjóða öllum smásölum sömu kjör svo stærðarhagkvæmni í heildsölu og vörudreifingu nýtist án þess að samkeppni í smásölu skaðist hefur ekki enn þá borist svar.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra hver afstaða forsætisráðherra sé til hugmynda í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans um aðgerðir til að lækka matarverðið, hvort hann muni beita sér fyrir að unnið verði með hugmyndir Hagfræðistofnunar í viðkomandi ráðuneytum. Er forsætisráðherra fylgjandi lækkun virðisaukaskatts á matvæli og er forsætisráðherra fylgjandi því yfirleitt að grípa til aðgerða til að lækka matarverðið? Og ef svo er, til hvaða aðgerða?