132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Þróun matvælaverðs.

[10:50]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni þá kannaði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að beiðni forsætisráðuneytisins matvælaverð á Íslandi í samanburði við helstu nágrannalönd og jafnframt var í þeirri skýrslu gerð grein fyrir hugsanlegum ástæðum mismunandi matvælaverðs í þessum löndum.

Það má segja að niðurstöður skýrslunnar hafi aðallega verið tvenns konar, í fyrsta lagi að reynt verði að tryggja samkeppni með því að vera vel á verði og fylgja eftir samkeppnislögum hér innan lands og auk þess að opna fyrir viðskipti við útlönd eftir því sem heilbrigði og sóttvarnir leyfa.

Samkeppnisstofnun er mikilvæg stofnun sem er verið að efla og það er afar þýðingarmikið að sú stofnun fylgist vel með þessum málum. Hér er um sjálfstæða stofnun að ræða og mér finnst hv. þingmaður tala einum of mikið um það að öðrum opinberum yfirvöldum beri að grípa þar inn í. Ég vænti þess að hv. þingmaður treysti Samkeppnisstofnun í þessu hlutverki.

Hins vegar er það rétt hjá hv. þingmanni að matvælaverð, þó að það hafi lækkað nú að undanförnu, hefur ekki lækkað í takt við hækkandi gengi. Ég kann ekki fullar skýringar á því en það sýnir að auðvitað getum við ekki treyst því algjörlega í frjálsri samkeppni að þetta breytist ávallt í takt við gengisbreytingar og það virðist vera tilhneiging til þess að það komi seinna fram en æskilegt væri. Það má því reikna með því, og vonandi verður það, að hækkun gengisins skili sér áfram á næstu mánuðum.

Í öðru lagi kom fram í umræddri skýrslu að það er talið kostnaðarsamara að styrkja landbúnað með tollum og innflutningshöftum en með beinum styrkjum. Ástæða þess sé m.a. sú að höftin skekki ákvarðanir um framleiðslu. Þetta er viðurkennt í heimsviðskiptum. Við höfum að sjálfsögðu viljað vernda okkar innlendu framleiðslu sem sjálfstæð þjóð og það hefur verið stefna þessarar ríkisstjórnar og annarra ríkisstjórna sem hafa setið á Alþingi. Við höfum hins vegar tekið þátt í þeirri vinnu sem fer nú fram á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um að breyta styrkjum vegna landbúnaðar í þá átt að þar verði í meira mæli um beina styrki að ræða. Þar er um flóknar samningaviðræður að ræða sem hafa tekið alllangan tíma og standa enn yfir. Það er að okkar mati ekki tímabært að gera einhliða breytingar fyrr en við sjáum betur út úr því máli.

Að því er varðar spurningar hv. þingmanns um lækkum virðisaukaskatts þá kemur það vissulega til greina eins og allar aðrar skattalækkanir. Ríkisstjórnin hefur ákveðið skattalækkanir sem felast fyrst og fremst í lækkun tekjuskatts. Það hefur hins vegar verið til athugunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar hver verða næstu skref. Við höfum talið að það væri rétt að lækka tekjuskattinn fyrst enda er það tryggara að slík lækkun skili sér til almennings alveg með sama hætti og gengið. Þá höfum við ekki sömu tryggingu fyrir því að skattalækkun skili sér með sama hætti til almennings.

Ég hef skilið það svo hér á hv. Alþingi að það væri verið að vara við skattalækkunum og stjórnarandstaðan vilji draga skattalækkanirnar til baka. Við höfum ekki útilokað lækkun virðisaukaskatts. En í fjárlögum næsta árs, svo það sé alveg skýrt, er ekki svigrúm til frekari skattalækkana.