132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Þróun matvælaverðs.

[11:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að taka matarverðið til umfjöllunar. Verðlag á matvælum er afgerandi þáttur í lífskjörum fólks og þá tek ég undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að við þurfum einnig að horfa til gæðanna ekki síður en til verðlagsins.

Ég vil þakka hv. málshefjanda, Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrir að taka þetta mál til skoðunar og hvetja til þess að það sé skoðað heildstætt. Ég tek undir nálgunina hjá hv. þingmanni. Við þurfum að finna hvað það er sem veldur því að verðlag á matvælum er hærra hér en gerist í okkar samanburðarríkjum og leita leiða til að færa verðlagið niður og horfa þá til heilnæmis og einnig til hagsmuna íslenskra framleiðenda og íslensks atvinnulífs. Við þurfum að sjálfsögðu að skoða þetta mál heildstætt.

Mönnum hættir til að horfa á afmarkaða þætti. Núna er það matarskatturinn, virðisaukaskatturinn. Hann var mjög til umræðu í byrjun tíunda áratugarins og þá var skiptingin í pólitíkinni og á atvinnumarkaði sú að Sjálfstæðisflokkur, Alþýðubandalag og Alþýðusambandið voru á því að færa skattinn niður. Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur og BSRB höfðu um þetta efasemdir og vildu fara aðrar leiðir, töldu betra t.d. að beina sjónum að barnafólki, öryrkjum og völdum hópum í samfélaginu. Sjálfur er ég enn þeirrar skoðunar þannig að það eru að sjálfsögðu mismunandi sjónarmið uppi hvað þetta snertir. En ég hvet til þess að við skoðum þessi mál heildstætt.

Mín skoðun er sú að við eigum fyrst og fremst núna að beina sjónum okkar að hringamyndun á matvörumarkaði. Þar er mikinn vanda að finna, tel ég vera, og við eigum að reyna að mynda breiðfylkingu í samfélaginu eins og gert var á fyrstu árum tíunda áratugarins (Forseti hringir.) þar sem samstaða myndaðist um að reyna að ná og þrýsta á að verðlag yrði fært niður.