132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Þróun matvælaverðs.

[11:12]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka umræðuna, hún hefur leitt í ljós það sem ég hef verið að tala um, það þarf að taka á þessu máli. Eins og hér hefur komið fram var matarverð örlítið að lækka út af því sem hefur verið lýst og fór niður um átta stig frá árinu 2002 til júní í ár, það hefur rokið upp um fimm stig núna frá júní til október, og það er óásættanlegt.

Ef fara á í þá vinnu sem þarf til að breyta verulega matarverðinu eins og það er á Norðurlöndum — við erum bara að tala núna um samanburð okkar við Norðurlöndin, ekki eitthvað meira — þá þarf að fara í það af alvöru. Samkeppnisstofnun tekur ekki þá ákvörðun. Hún tekur ekki ákvörðun um hvernig stuðningurinn á að vera við landbúnaðinn, ekki um aðgerðir vegna umhverfis innflutnings, varðandi skattana eða annað, ekki um tollabreytingar, ekki um hvort taka á helming af stuðningi við landbúnað, sem er 12–13 milljarðar í dag, í matarverðinu beint eða fara í beingreiðslur eins og mun verða gert með tímanum og mun verða það sem kemur í framtíðinni, en við höfum ekki döngun í okkur til að skoða það sjálf og koma til móts við fólkið í landinu.

Það var skoðað í Noregi hvað það mundi þýða fyrir fjögurra manna fjölskyldu ef matarverðið lækkaði eða verðlag færi niður í þær verðbreytingar sem urðu í Svíþjóð eftir Evrópusambandsaðild. Það voru 250 þúsund ísl. kr. á ári. Hvað erum við eiginlega að tala um?

Ég vil líka taka það fram hvað varðar virðisaukaskattinn að í Danmörku er hann 25% á mat eins og öllu öðru. Samt er maturinn þar miklu ódýrari af því að tollar og umgjörð innflutnings á framleiðslu er annað. Svíþjóð hefur hins vegar lækkað í 14% og Noregur lækkaði fyrir tveimur árum í 14%. Ekki vældu menn um að það væri ekki hægt að taka ákvarðanir með lögum af því að það mundi ekki skila sér. Er það eitthvert hyski sem sér um verslun hér á Íslandi að við skulum tala svona í sölum Alþingis?