132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[11:51]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er spurt um mína persónulegu afstöðu og okkar þingflokks og flokks, hvort við getum samið. Sjálfur hef ég nú staðið í samningum í langan tíma á vettvangi verkalýðshreyfingar og oft og iðulega náð samningum og niðurstöðu. Við höfum lagt okkar mál þannig fram í þingkosningum að þau séu líkleg til þess að ná fram að ganga. Ég nefni hugmyndir okkar í efnahagsmálum, í skattamálum o.s.frv. Ég tel að við höfum iðulega sett fram raunsærri og raunhæfari tillögur en margir aðrir. Við höfum reynt að forðast það að ganga í augun á kjósendum á fölskum forsendum.

Að sjálfsögðu gerum við okkur grein fyrir því, eins og allir aðrir, að oft þarf fólk að slá af ýtrustu kröfum og reyna að ná samkomulagi þó með það að leiðarljósi að menn fórni ekki sínum hugsjónum. En sem betur fer er það nú þannig í íslensku samfélagi að ef menn leggja sig fram þá ná menn landi. En vissulega eru það sumir þættir sem við erum ekki tilbúin að slá af. Ég horfi þar t.d. til stóriðjustefnunnar og það má nefna önnur sjónarmið. Á slíkt mundi reyna þegar gengið yrði til samkomulags um stjórnarsáttmála. Ég held að menn geti alveg treyst því að þegar kemur að samstarfi erum við ekki síður til samstarfs fallnir en aðrir stjórnmálaflokkar, að sjálfsögðu erum við það ekki.

Ég ítreka hins vegar hitt að ég held að það eyðileggi eitthvað í fólki þegar því er þröngvað til að ganga gegn sannfæringu (Forseti hringir.) sinni eins og ég hef margoft horft upp á hér, einkum í stjórnarmeirihlutanum.