132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[11:57]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það fer fram gagnmerk og prýðileg umræða um þrígreiningu ríkisvaldsins og hlutverk Alþingis, hlutverk framkvæmdarvaldsins í því öllu saman og hvernig megi ná fram skýrari aðgreiningu þarna á milli. Ég held að allir sem hafa fylgst sérstaklega með þróun síðustu tíu ára hafi séð hvernig fjarað hefur undan aðgreiningu á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds þannig að hún er í huga ansi margra orðin nánast að engu. Alþingi virkar sem einhvers konar stimpilstofnun, afgreiðslustofnun fyrir málefni ríkisstjórnarinnar, málatilbúnað sem kemur meira og minna og næstum því að öllu leyti ofan úr ráðuneytunum. Þingmannamálin, sem hér eru rædd þegar ekki liggja fyrir stjórnarfrumvörp, eru rædd hér í 1. umr., fara síðan til þingnefnda þar sem þau sofna og koma aldrei aftur. Það er þó einhver hefð sem hefur skapast fyrir því að hleypa einu máli á ári í gegn, eins og til að hæðast að löggjafarvaldinu. Það er svona háðsglósa framkvæmdarvaldsins til Alþingis, að taka nú eitthvert eitt mál, eitthvað sem skiptir kannski ekki miklu máli og kostar ekki allt of mikið, og hleypa því í gegn. Þetta er kurteisisleg hæðniskveðja framkvæmdarvaldsins til löggjafans.

Hv. 1. flutningsmaður þessa máls, Siv Friðleifsdóttir, spurði mig frekar út í það sem ég nefndi hér áðan um beina kosningu framkvæmdarvaldsins. Ég gat um þetta sem eina leið sem menn hljóta að skoða til að ná fram því markmiði að greina á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, sem eina leið sem hefur áður verið uppi á borðinu í íslenskum stjórnmálum.

Gylfi Þ. Gíslason skrifaði töluvert um þá leið að kjósa framkvæmdarvaldið beinni kosningu með það að markmiði að skilja þar á milli, hann skrifaði töluvert um það á sínum tíma. Vilmundur Gylfason, sonur hans, fyrrverandi alþingismaður, tók það síðan upp og flutti um það sérstakt þingmál hér á Alþingi fyrir 22 árum, held ég. Ég held að það hafi verið 1983. Það var þá boðað sem fyrsta þingmál væntanlegs þingflokks Bandalags jafnaðarmanna, þess merkilega stjórnmálaflokks sem skildi mörg merkileg mál eftir sig á stuttum ferli og sérstaklega mál sem fjalla um og lúta að stjórnskipan og lýðræði.

Eitt af þeism málum var bein kosning framkvæmdarvaldsins, mál sem ég kynnti mér ágætlega í fyrra og hef lesið mér til gagns og gamans og hef tekið undir ýmislegt sem þar kemur fram. Eins og málin eru lögð fram þar um beina kosningu þá er forsætisráðherra — hvað sem við köllum hann, forsætisráðherra, forseti eða hvað, þar er hann kallaður forsætisráðherrann — kosinn í beinni kosningu, tveimur umferðum, líkt og við þekkjum t.d. frá Frakklandi. Að lokum yrði kosið á milli þeirra tveggja sem eru eftir og sá fer með framkvæmdarvaldið sem vinnur þá kosningu. Hann skipar síðan ríkisstjórnina, annaðhvort úr röðum alþingismanna eða annarra þeirra úr samfélaginu sem hann treystir. Hann getur sótt sér tvo, þrjá þingmenn eða fleiri og hann sækir þá hingað og þangað, eins og við svo sem þekkjum annars staðar úr Skandinavíu og Evrópu. Nýjasta dæmið er utanríkisráðherrann í Noregi. Jens Stoltenberg, foringi norska verkamannaflokksins og forsætisráðherra í Noregi, myndaði glæsilega ríkisstjórn sem maður hrífst af og fylgist með stíga sín fyrstu skref. Í Noregi er í fyrsta sinn í yfir 20 ár meirihlutastjórn jafnaðarmanna og vinstri flokka með þátttöku miðflokksins, hrein vinstri stjórn. Menn gáfu ekki kost á öðru, annaðhvort yrði kosið á milli vinstri blokkar eða hægri blokkar. Þar virkar þetta, þar virka valkostirnir. Hérna vita kjósendur aldrei hvað þeir fá, þeir kaupa köttinn í sekknum. Þeir geta fengið einhvern óskapnað út úr kosningunum. Ég má nú ekki til þess hugsa hvað gæti komið þar upp.

Með því að kjósa framkvæmdarvaldið beinni kosningu er sú hætta ekki til staðar. Þá er það skýrt hver fer með framkvæmdarvaldið. Sá sem með það færi veldi sína ríkisstjórn, hún þyrfti svo að hljóta samþykki Alþingis eða verða formfest á einhvern annan hátt. Þannig kysum við ekki alla ráðherrana heldur einungis forsætisráðherrann. Svo yrði Alþingi kosið sér og óháð því og virkaði fullkomlega óháð framkvæmdarvaldinu og sem algjört aðhald á það, líkt og við þekkjum úr Bandaríkjunum og víðar.

Það eru til margar leiðir að þessu, það eru til margar leiðir um skilin og skiptin á milli forsetans eða forsætisráðherrans og Alþingis. Við getum tekið Frakkland, Finnland, Bandaríkin, fjöldamörg dæmi, en við yrðum að sjálfsögðu að finna okkar eigin leið.

Þetta er hugmyndin sem kynnt var af Vilmundi og ég hef áður hvatt til þess að menn skoði það vel og vandlega og taki því ekki sem fjarlægri hugmynd út af hinu heilaga þingræði sem virkar ekki á Íslandi. Það er ósköp broslegt á köflum hvernig það virkar og hvernig framkvæmdarvaldið veður yfir löggjafann aftur og aftur á skítugum skónum. Hv. þm. Ögmundur Jónasson lýsti því nú ágætlega hvernig einstakir þingmenn virðast stundum neyddir til að ganga gegn sannfæringu sinni til að tiltekið mál nái fram að ganga, alla vega hafa slíkar sögur verið sagðar.

Það þarf að ná fram skýrri aðgreiningu. Ein leiðin er sú að kjósa framkvæmdarvaldið beinni kosningu og ég tel að menn eigi að skoða þann kost. Við eigum að skoða þann kost rétt eins og þann sem hér er kynntur um að ráðherrar segi af sér þingmennsku, það hefur marga augljósa galla þó að við mundum fækka þingmönnum um tólf. Áfram hallar verulega á stjórnarandstöðuna þar sem ríkisstjórnarflokkar hvers tíma hafa áfram sína, eins og núna er, tólf ráðherra hér í þinginu auk þeirra þingmanna sem mundu bætast við á bekkina úr þeirra eigin röðum. Áfram hallar því á stjórnarandstöðu hvers tíma og það er ekki hægt að sætta sig við það heldur. Það þarf að finna betri leiðir til að þetta mál geti náð fram að ganga með þessum hætti. Ég styð markmiðið heils hugar og við eigum að setjast yfir það vel og vandlega hvernig er best að ná því fram og auðvitað er verið að vinna að stjórnarskrárbreytingum núna. Það á eftir að koma í ljós hvað kemur út úr því en við skulum vona það besta.