132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[12:04]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var einungis tvennt í ræðu hv. þingmanns sem ég vil gera athugasemd við. Í fyrsta lagi segir hann að áhrifavald framkvæmdarvaldsins hafi stóraukist á undanförnum árum. Ég hugsa að minni hv. þingmanns nái ekki langt aftur vegna þess að einu sinni voru allir bankar landsins eða flestir í eigu ríkisins. Þá tilnefndi Alþingi menn í bankaráð í kosningu á Alþingi og hefð var fyrir því að þingmenn yrðu bankastjórar. Þessir menn ráðskuðust með sparifé landsmanna með því deila því út í lánum til fyrirtækja og einstaklinga. Ef menn telja það ekki vera áhrif framkvæmdarvaldsins og samtvinnun löggjafarvalds og framkvæmdarvalds þá veit ég ekki hvar þeir eru staddir. Búið er að selja þessa banka, búið er að selja mjög mörg ríkisfyrirtæki og það er einmitt stefnan, að minnka völd ríkisins í atvinnulífinu.

Í öðru lagi sagði hv. þingmaður að vaðið væri yfir þingmenn á skítugum skónum og átti þá við hv. stjórnarþingmenn. Ég held að flestir þingmenn, þegar þeir taka afstöðu til mála, vegi og meti hvort þeir hagsmunir sem þeir eru að verja séu meiri eða minni en þeir sem tapast. Ég hef alltaf litið þannig á að ríkisstjórnin sé að gera mjög góða hluti og ég er afskaplega ánægður með að hafa stutt ríkisstjórnir síðustu 10 ára og ég vil að þessi ríkisstjórn haldi velli. Ef einhver hætta væri á að hún héldi ekki velli, jafnvel í einhverju máli sem ég þyrfti að beygja eða taka krók á sannfæringu mína, vildi ég frekar að ríkisstjórnin héldi velli og héldi sínu góða starfi áfram með að lækka skatta, hækka laun o.s.frv. en að sannfæring mín næði fram í því máli. Það hefur ekki reynt mikið á það vegna þess að það vill svo til, frú forseti, að gjörðir ríkisstjórnarinnar eru yfirleitt í mínum anda.