132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

31. mál
[12:06]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum. Frumvarpið er flutt af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þetta þingmál hefur áður komið fram á þinginu, það var á síðasta löggjafarþingi, 131. þingi, en varð ekki afgreitt. Málið er flutt að nýju óbreytt að öðru leyti en því að greinargerð sem því fylgir hefur verið breytt til samræmis við breytt fjárlagafrumvarp og breyttar aðstæður að öðru leyti.

Í frumvarpinu er lagt til að hlutfall fjármagnstekjuskatts hækki úr 10% í 18% en jafnframt verði sett skattleysismörk við 120 þús. kr. tekjur einstaklinga á ári, þ.e. að menn geti þénað 120 þús. kr. á ári án þess að komi til skattlagningar. Miðað við forsendur frumvarpsins má áætla að fjármagnstekjur ársins 2004 hefðu orðið rúmir 10 milljarðar kr. á rekstrargrunni í stað 7 milljarða kr., eða 3 milljörðum kr. hærri.

Í frumvarpi til fjárlaga árið 2006 er gert ráð fyrir 12.300 millj. kr. fjármagnstekjuskatti á rekstrargrunni. Miðað við forsendur frumvarpsins yrðu tekjur af fjármagnsskatti rúmir 17 milljarðar kr., eða sem svarar aukningu upp á rúma 5 milljarða kr.

Gera má ráð fyrir að ef við reiknum með 120 þús. kr. skattleysismörkum verði rúm 90% einstaklinga og ríflega 70% hjóna sem nú greiða fjármagnstekjuskatt undanþegin skattinum. Það þýðir að að uppistöðu til eru þeir sem hafa tekjur af fjármagni mjög fáir. Þótt hlutfallið sé hátt er hér fyrst og fremst um að ræða smásparnað almennings sem hefur yfirleitt sínar tekjur af launavinnu.

Á undanförnum árum hefur fjölgað þeim einstaklingum hér á landi sem afla töluverðs hluta heildartekna sinna með tekjum af fjármagni, sem þeir greiða aðeins 10% skatt af. Um leið breikkar bilið milli þeirra tekjuhæstu og tekjulægstu. Ætla má að fjármagnstekjur séu meira en helmingur af tekjum þeirra 5% framteljenda sem hæstar tekjur hafa í þjóðfélaginu. Þessir aðilar greiða lægra hlutfall af tekjum sínum til samfélagsins en launafólk gerir. Það teljum við vera mjög óeðlilegt og heppilegt að reyna að færa skattheimtuna inn í farveg þar sem hlutfallið er hið sama. Vinnandi fólk greiðir sem kunnugt er 37,7% skatt. Tekjur þeirra auðugustu í landinu, þ.e. þeirra sem eiga fjármagnið og þeirra sem þiggja hluta tekna sinna af hlutabréfakaupum eða kaupréttarsamningum, eru aftur á móti mestmegnis fjármagnstekjur. Af þeim greiða þeir, eins og fyrr segir, aðeins 10% skatt

Flutningsmenn vilja að brugðist verði við breyttu tekjumunstri í þjóðfélaginu og því óréttlæti sem stafar af misræmi í skattlagningu fjármagnstekna og launa. Þá mun sú lagabreyting sem hér er lögð til afla ríkissjóði aukinna tekna til að standa straum af nauðsynlegri velferðarþjónustu.

Stundum hefur verið sagt að færum við of hátt upp með þennan skatt flýi fjármagnið, eigendur peninganna fari annað. Vissulega hafa verið nokkur brögð að því að þeir hafi leitað til svokallaðra skattaparadísa í Ermarsundinu, Guernsey, og víðar. Er ömurlegt til þess að hugsa að þetta fólk sé ekki reiðubúið að axla samfélagslega ábyrgð eins og oft er reyndar höfðað til hjá launafólki, að standa saman þegar á móti blási og sýna ábyrgð gagnvart samfélaginu. Þessi mannskapur telur sig jafnan undanþeginn öllum slíkum siðferðilegum kröfum.

Menn spyrja oft þeirrar spurningar hvert menn kæmu til með að flýja með peningana ef fjármagnstekjuskatturinn yrði hækkaður. Leiti þetta fólk ekki inn í svokallaðar skattaparadísir þá er stór spurning hvert það færi, vegna þess að staðreyndin er sú að fjármagnstekjuskattur er víðast hvar mun hærri en hann er hér á Íslandi. Í Bandaríkjunum er notað stighækkandi skatthlutfall sem ræðst af tekjum og félagslegri stöðu fólks, allt frá 10% og upp í 38,6%. Fastur frádráttur er 4.750 bandaríkjadalir fyrir einstakling. Hægt er að draga frá persónuafslátt að upphæð 3.050 dalir.

Við þetta bætast ýmsir svæðisbundnir skattar þar sem skattstofninn er svipaður en persónuafsláttur og frádráttur eru mismunandi eftir einstökum ríkjum. Skatthlutfallið er oftast stighækkandi frá 3% upp í 25%.

Í Bretlandi eru þrjú skattþrep í almennum tekjuskatti: 10% á tekjur upp að 1.920 pundum, 22% á tekjur á bilinu 1.921–29.900 pund og 40% á tekjur umfram 29.900 pund. Um fjármagnstekjuskatt gildir að skattprósenta á söluhagnað ræðst af tekjuskattsstofni hvers einstaklings, nema ef fjármagnstekjur eru í milliflokknum en þá bera þær aðeins 20% skatt.

Í Danmörku eru fjármagnstekjur skattlagðar með öðrum tekjum. Innheimtur er 28% skattur af arðgreiðslum upp að 41.100 dönskum kr. en 43% af hærri upphæðum.

Í Finnlandi eru fjármagnstekjur skattlagðar með flötum 29% skatti.

Í Kanada eru mismunandi skattþrep. Heildarskattprósenta má þó aldrei vera hærri en á bilinu 39–48,6%. Fjármagnstekjur eru yfirleitt skattlagðar með lægra skatthlutfalli þar sem aðeins þarf að greiða skatt af helmingi hreinna fjármagnstekna. Það skal tekið fram að það flækir náttúrlega þessa mynd þegar hún er skoðuð að það eru alls kyns undanþágur og kannski vafasamt í sumum tilvikum að horfa á skattprósentuna eina.

Í Noregi eru fjármagnstekjur skattlagðar með almennum tekjum (hreinum tekjum). Þar er að hámarki lagður 28% skattur á hreinar tekjur, skatthlutfall ríkisins er að hámarki 10,35% en sveitarfélaga að hámarki 17,65%. Síðan kemur persónuafsláttur.

Í Svíþjóð er flatur fjármagnsskattur upp á 30% og síðan eru margvísleg skattþrep.

Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta en ég er aðeins að reyna að draga upp þá mynd sem blasir við. Þegar fjármagnstekjuskattur er gaumgæfður í öðrum löndum kemur á daginn að við erum með lægri fjármagnstekjuskatt en víðast hvar þekkist. Ég tel að við eigum að stefna að því að færa skattlagningu á laun og aðrar tekjur, og þess vegna tekjur af peningum, inn í svipaðan farveg og stefna þar að samræmingu.

Því er ekki að leyna að við erum líka að horfa til skatttekna ríkisins. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum mikla áherslu á að styrkja velferðarþjónustu landsmanna. Hún er til tekjujöfnunar í samfélaginu og jafnar annan aðstöðumun og býr auk þess til réttlátara samfélag. Til þess þurfum við peninga og þá þurfum við að koma fram með tillögur um hvar við viljum taka þá peninga. Síðast en ekki síst horfum við á það sem er að gerast í íslensku samfélagi, stóraukinn mun, stóraukið tekjubil og það skýrist að hluta til af því að hluti þjóðarinnar hefur framfæri sitt af launavinnu en aðrir af fjármagninu. Þarna þarf að ráða bót á og við viljum stíga það skref með þessum tillögum um breytingar á skattkerfinu.

Ég legg svo til að málinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar þingsins til umfjöllunar.