132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum.

14. mál
[12:25]
Hlusta

Flm. (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um eflingu náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum. Þetta er 14. þskj. og 14. mál á þessu þingi en auk mín eru flutningsmenn hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, Dagný Jónsdóttir, Katrín Júlíusdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir.

Markmið þingsályktunartillögunnar er að vekja athygli á því mikla brottfalli í framhaldsskólanum sem við búum við, og höfum búið við mörg undanfarin ár, og benda á þá leið að það sé sérstaklega kannað hvaða gildi það hafi að auka náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum sem úrræði gegn brottfallinu.

Það er svolítið á reiki, og fer tvennum sögum af því, hvert raunverulegt brottfall er í framhaldsskólunum. Jón Torfi Jónasson og Kristjana Stella Blöndal gerðu rannsókn árið 2002 og með leyfi forseta segir í skýrslu þeirra:

„Brottfall nemenda úr framhaldsskólum á Íslandi er vandamál. Samkvæmt íslenskum rannsóknum má ætla að hlutfall þeirra sem ljúka ekki framhaldsskólanámi eða neinu formlegu námi sé rúmlega 40%.“

En þetta brottfall er ferli sem nemandi gengur í gegnum og er því ekki mælanlegt á einum tímapunkti og það er mikilvægt að hægt sé að grípa inn í þetta ferli með markvissum hætti til að koma nemandanum til aðstoðar. Það eru margir þættir sem hafa áhrif á brottfall og það er ekki hægt að einblína á einn þessara þátta frekar en annan. Í þessu sambandi má t.d. nefna námsárangur nemandans, viðhorf nemanda til náms, óheppilegt námsval, áhrif foreldra og síðan félagslegan stuðning. Þetta eru þeir þættir sem lúta að nemandanum sjálfum en við megum ekki gleyma því að brottfallið er ekki eingöngu persónulegur vandi, það er líka stórt vandamál fyrir þjóðfélagið í heild og í því tilviki sem við hér ræðum fyrir íslenskt þjóðfélag.

Það er ekki við að styðjast útreikning á því hvað brottfallið kostar íslenskt þjóðfélag en á Bretlandi hefur ákveðin skrifstofa, National Audit Office, reiknað út að hver einstaklingur á aldrinum 16–19 ára sem er ekki í námi, vinnu eða hefur lokið einhvers konar starfsþjálfun kosti breska þjóðfélagið 98 þús. pund eða sem samsvarar tæplega 12,5 millj. íslenskra króna.

Þær tölur sýna að það er verðugt viðfangsefni að kanna leiðir til að draga úr brottfallinu og þessi tillaga, eins og ég sagði í upphafi máls míns, gengur út á það að gildi þess að stórauka náms- og starfsráðgjöf sé kannað. Eins og er er skipulögð aðstoð við nemendur innan skólakerfisins, bæði í höndum kennara og stjórnenda og eins í höndum þeirra sem eru sérstaklega menntaðir og þjálfaðir til slíkra starfa en það er sú stétt sem heitir starfs- og námsráðgjafar. Þetta er mjög nýleg grein í háskólanámi og frá því að kennsla hófst í námsráðgjöf við Háskóla Íslands árið 1991 hafa 160 námsráðgjafar útskrifast þaðan. Auk þess hafa um 10 námsráðgjafar sem starfa á Íslandi numið við erlenda skóla.

Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um fjölda námsráðgjafa í menntakerfinu en ætla má að um 80 starfi á grunnskólastiginu, 40 í framhaldsskólum og rúmlega 20 á háskólastigi og svo eru einhverjir sem starfa víða á vinnumiðlunum um land allt.

Árið 1998 skilaði þar til skipuð nefnd menntamálaráðuneytinu áliti sínu og mig langaði, með leyfi forseta, að vísa beint í tillögur frá henni en þar segir:

„Náms- og starfsráðgjöf hefur það að markmiði að efla vitund einstaklinga um viðhorf sín, áhuga og hæfileika, þannig að þeir fái notið sín í námi og starfi. Sjálfsþekking gerir fólk hæfara til að takast á við álag og kröfur samfélagsins og auðveldar því að meta hvaða vettvangur hentar best. Aðstoð við ráðgjöf við námsval og aðstoð og ráðgjöf meðan á námi stendur eru tveir meginþættir í starfi náms- og starfsráðgjafa. Fagleg greining á persónulegum vanda nemanda og samráð við sérfræðinga sem vísað er til hjálpar þeim að takast á við líf og störf og búa þeim um leið viðunandi vinnuskilyrði í skóla og heima.“

Mig langar líka, með leyfi forseta, að vísa í og lesa upp hluta úr áliti nefndar sem skilaði ráðuneytinu niðurstöðum sínum 1991, en þar segir:

„Náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum miðar að því að styrkja persónuþroska nemenda og efla trú á eigin færni til að gera hann betur færan að yfirvinna vanda og ná settum markmiðum í námi og starfi. Meginverkefni náms- og starfsráðgjafar eru: náms- og starfsráðgjöf, persónuleg ráðgjöf, náms- og starfsfræðsla, kannanir, mat, þróunarstarf og fyrirbyggjandi starf.“

Í tillögu nefndarinnar frá 1998, sem ég vísaði fyrst til, koma fram ýmsar hugmyndir um eflingu náms- og starfsráðgjafar, t.d. að náms- og starfsfræðsla verði gerð að skyldunámsgrein í 8. og 10. bekk og að framhaldsskólar bjóði skyldu- og valáfanga í náms- og starfsfræðslu. Enn fremur eru þar nefndar leiðir til að takast á við brottfall í framhaldsskóla, m.a. að kanna skipulega viðhorf nemenda í 10. bekk í grunnskóla til náms og starfs, taka upp markvissa kennslu í námstækni og vinnubrögðum og efla stuðning við nemendur í sértækum vanda.

Sumar þessar tillögur hafa komið til framkvæmda en þó í mismiklum mæli og það er mjög mikilvægt að stjórnvöld hugi að heildarstefnumótun á þessu sviði. Hvarvetna í menntakerfinu má greina þörfina fyrir starfs- og námsráðgjöf og um það er víða rætt. Í skólastefnu Kennarasambands Íslands 2002–2005 er til að mynda fjallað um hlutverk náms- og starfsráðgjafar í grunnskólum en við búum hins vegar við mjög óskýran lagaramma um þessi sérfræðistörf, um störf náms- og starfsráðgjafa. Við getum tekið sem dæmi að í grunnskólalögunum, nr. 66/1995, er fjallað um sérfræðiþjónustu og þar er kveðið á um að námsráðgjöf sé hluti af sérfræðiþjónustu skólanna en ekki er tiltekið neitt nánar um útfærslu eða innihald þeirrar starfsráðgjafar.

Í áliti nefndarinnar frá 1998, sem fjallar um fjölgun stöðugilda í náms- og starfsráðgjöf í skólum, er m.a. lagt til að eitt stöðugildi í námsráðgjöf verði á hverja 300 nemendur í grunn- og framhaldsskólum en þeir leggja áherslu á að aldrei verði ráðið í minna en hálft stöðugildi. Engu af þessu hefur verið hrundið í framkvæmd og það er nauðsynlegt að horfa mun betur en við höfum gert til laga- eða reglugerðarsetningar um málefni náms- og starfsráðgjafar, bæði í grunn- og í framhaldsskóla.

Í aðalnámskrá grunnskóla árið 1989 er náms- og starfsfræðsla skilgreind sem einn af nýjum lykilþáttum í skólastarfi en í nýrri aðalnámskrá grunnskóla frá 1999 voru markmiðin fyrir náms- og starfsfræðslu sett undir nýja námsgrein sem nefnist lífsleikni. Það má segja að það sé engan veginn ljóst hvert vægi þessa námsþáttar sem skyldunámsgreinar hefur orðið við þá breytingu. Mér sýnist alla vega að með þessu sé ekki verið að gefa náms- og starfsráðgjöfinni meira vægi en áður. Hún er þvert á móti sett í einhvern pott undir heitinu lífsleikni en þeir sem hafa kynnt sér það sérstaklega vita sem er að það er mjög mismunandi eftir skólum við hvaða námsefni er stuðst í þeirri grein og hvernig hún er útfærð. En það er sífellt fleira sem kallar á fræðslu um nám og störf í nútímasamfélagi, auk þess sem breyttar þjóðfélagsaðstæður kalla á sí- og endurmenntun. Samfélagið hefur breyst og það þarf að búa ungt fólk undir aðrar aðstæður á vinnumarkaði. Fólk er ekki lengur í sama starfinu alla ævi eins og við þekktum í meira mæli áður fyrr heldur skiptir það um starf og nám oft á lífsleiðinni. Vert er að árétta í þessu samhengi að tækniþróun, aukin samkeppni og alþjóðavæðing hafa leitt til mjög víðtækra breytinga og haft áhrif á líf og störf fólks.

Aukið valfrelsi í grunnskólanum kallar líka á aukna náms- og starfsráðgjöf. Inntökuskilyrði hafa breyst og námsleiðum á framhalds- og háskólastigi fjölgað. Nú búum við auk þess við mismunandi fornámskröfur eftir námsleiðum, en allt þetta krefst vandlegrar ígrundunar í náms- og starfsvali. Eins og við vitum hefur líka verið mikið rætt um að stytta nám til stúdentsprófs um alla vega ár, hvort sem þá styttingu ber niður í framhaldsskólanum eða grunnskólanum, og þess vegna er auðvitað enn meiri nauðsyn á því að huga að námsvali strax í grunnskóla og fylgja því eftir um leið og í framhaldsskólann er komið með öflugri og einstaklingsbundinni ráðgjöf. Þetta getur bæði sparað fjármuni og ekki er síður vert að þetta getur líka hlíft einstaklingum við að lenda á reki í kerfinu og jafnvel að bíða skipbrot í upphafi starfsævi sinnar.

Í þessu samhengi má benda á doktorsritgerð dr. Guðbjargar Vilhjálmsdóttur frá 2003 en Guðbjörg er lektor í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands. Þar koma fram mjög mikilvægar vísbendingar sem allar renna stoðum undir þá sannfæringu flutningsmanna að aukin og markviss náms- og starfsráðgjöf sé til þess fallin að draga verulega úr brottfalli úr framhaldsskóla í íslensku samfélagi.

Það er líka vert að horfa aðeins til nánustu frændþjóða okkar á þessu sviði og þess má geta að þær gefa náms- og starfsráðgjöf mun meiri gaum en við gerum. Sem dæmi má nefna að 1. ágúst 2004 voru sett ný lög um náms- og starfsráðgjöf í Danmörku og þar segir beint að börn og ungt fólk upp að 25 ára aldri eigi rétt á náms- og starfsráðgjöf. Þar er gert ráð fyrir 46 náms- og starfsráðgjafarmiðstöðvum sem sveitarfélögin reka. Ungt fólk og fullorðið á sama rétt á ráðgjöf um framhaldsnám og störf á svæðismiðstöðvunum sjö og námsráðgjafarmiðstöðvar eru skyldugar til að fylgja eftir fólki yngra en 19 ára sem er ekki í formlegu námi eða á vinnumarkaði. Síðan er leitað leiða til að koma viðkomandi til aðstoðar og gera áætlun um að hann hefji nám, þjálfun eða starf.

Þá er rétt að vísa í góða útkomu Finna í svokallaðri PISA-rannsókn. Þeir ganga eiginlega lengst og með lögum sem voru sett 1998 er tryggt að allir nemendur eigi rétt á náms- og starfsráðgjöf og hver nemandi eigi rétt á minnst tveimur klukkustundum á viku á skólaárinu. En Finnarnir hafa gengið lengst í því að setja löggjöf sem tryggir nemendum rétt til náms- og starfsráðgjafar og það hlýtur þá að vera í þeirri trú og sannfæringu að það hafi mikil áhrif á framgang þeirra í námi og síðar í starfi. Við búum við flókið upplýsingaumhverfi og það er ljóst að það þarf að aðstoða væntanlega þátttakendur í skólakerfi eða atvinnulífi og það er líka ljóst að brottfall nemenda og skortur á úrræðum fyrir þann hóp sem hættir námi kostar einstaklingana mikið, persónulega, fjárhagslega og félagslega, auk kostnaðarins fyrir skólakerfið og þjóðfélagið. Skilvirkar leiðir í náms- og starfsráðgjöf eru að mati okkar flutningsmanna ein af forsendum þess að fólk geti eflt færni sína til að stunda nám og starf farsællega. Það er ljóst að þetta þarf að efla á Íslandi.

Eftir að þessu máli var dreift á síðasta löggjafarþingi fengu flutningsmenn ábendingu um að fleiri sérfræðingar innan grunn- og framhaldsskóla sinni náms- og starfsráðgjöf, bæði sálfræðingar og skólafélagsráðgjafar. Af því tilefni vilja flutningsmenn ítreka að markmiðið er að kanna gildi þess að auka náms- og starfsráðgjöf en ekki er ætlunin að útiloka eina stétt ráðgjafa frekar en aðra. Við leggjum áherslu á að kanna gildi ráðgjafar sem má ætla að sé til þess fallin að draga úr brottfalli nemenda.

Tillögugreinin, frú forseti, hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd sem kanni gildi þess og gagn að auka náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum, sem úrræðis gegn brottfalli nemenda í framhaldsskólum og fyrir farsælt náms- og starfsval. Nefndin kanni sérstaklega ástæður þess að svo stór hluti nemenda velur bóknám að loknum grunnskóla, hver séu áhrif foreldra og kennara á náms- eða starfsval og hvaða hugmyndir grunnskólanemendur hafi um framhaldsnám og störf að námi loknu. Jafnframt geri nefndin samanburð á náms- og starfsráðgjöf í helstu nágrannalöndum, svo og árangri ráðgjafar og annarra úrræða gegn brottfalli. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um niðurstöður nefndarinnar, þar á meðal tillögum um aukna náms- og starfsráðgjöf og fyrirkomulag hennar ef niðurstöður hníga í þá átt, fyrir 15. nóvember 2006.“