132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum.

14. mál
[12:40]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mjög athyglisvert og gott mál sem ég styð heils hugar. Ég er stoltur af því að vera einn af flutningsmönnum þess.

Eins og hv. 1. flutningsmaður, Jónína Bjartmarz, mælti svo prýðilega áðan þá er þetta mál, um mikilvægi þess að efla náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum, mjög vandað og stutt góðum rökum. Slík ráðgjöf er meginúrræði til þess að draga úr brottfalli í framhaldsskólum — sem er mjög hátt á Íslandi, allt of fáir þeirra sem hefja nám í framhaldsskólum útskrifast þaðan — og til þess að sem flestir nemendur séu farsælir í náms- og starfsvali. Hér er rætt um að nefndin kanni sérstaklega ástæður þess að svo stór hluti nemenda velur bóknám að loknum grunnskóla og hver séu áhrif foreldra og kennara á náms- og starfsval.

Það fara allt of margir í bóknám á Íslandi og allt of fáir í starfsnám og það er allt of skýr greinarmunur gerður á þessu tvennu. Það þarf að eyða þessari úreltu skiptingu í tvennt af því að þetta á að vera eitt og hið sama. Það á ekki að vera svona stíf aðgreining á milli þeirra sem fara í bóknám og útskrifast með stúdentspróf og hinna sem leggja fyrir sig starfsnám. Starfsnámið á að vera partur af þessu öllu saman og nemendur í starfsnámi eiga að geta lokið námi með prófi sem yrði sambærilegt við stúdentspróf. Allt of margir fara í bóknám og þarna er námsráðgjöfin algert lykilatriði.

Það eru allt of fáir námsráðgjafar á hvern nemanda á Íslandi. Það þarf að fjölga verulega náms- og starfsráðgjöfum í grunnskólunum sem og í framhaldsskólunum. Hlutfall þeirra sem ljúka ekki framhaldsskólanámi eða neinu formlegu námi er rúmlega 40%. Það er gríðarlega hátt hlutfall og ekkert bendir til þess að það hlutfall sé að breytast. Það bendir ekkert til annars en að það verði svipað hlutfall hvers árgangs sem útskrifast eða lýkur formlegri skólagöngu að loknum grunnskóla nú og fyrir 10, 20, 30 árum síðan. Það hefur ekki margt breyst í því. Fjölgunin í framhaldsskólunum liggur meira í stærri árgöngum og þeim sem eru að koma aftur eftir að hafa fallið á brott og hefja nám á nýjan leik sem er náttúrlega mjög gleðileg þróun.

Námsráðgjöfin er í þessum efnum algert grundvallaratriði og það er mjög fróðlegt að lesa skrif sérfræðinga á því sviði. Ég les mjög oft mér til gagns það sem Gísli Baldvinsson, náms- og starfsráðgjafi, skrifar á sinn vef og í fagtímarit ýmiss konar. Ein mjög athyglisverð grein sem hann birti, að ég held í fyrra, heitir „Líður börnunum illa í skóla?“, algert grundvallaratriði, þar sem náms- og starfsráðgjafi og þær fagstéttir sem taka á slíku hafa mikið að segja. Gísli segir að í almennum líðanakönnunum komi í ljós að á milli 9–12% nemenda, sem sagt meira en tíunda hverjum nemanda, líði alltaf eða mjög oft illa í skólanum. Það er náttúrlega mjög há tala og mjög alvarleg vísbending um að eitthvað sé að. Auðvitað er alltaf eitthvað að, auðvitað verður aldrei neitt fullkomið og skólinn er stórt, hávært og að mörgu leyti harkalegt samfélag margra barna og unglinga og erfitt að koma í veg fyrir að árekstrar verði og mörgum líði illa. En það slær mann hversu há þessi tala er, að 9–12% nemenda líði alltaf eða mjög oft illa. Það hlýtur að vera alvarleg vísbending um að tíunda hvert barn fari í skólann á hverjum einasta degi með kvíðahnút í maganum. Það er hörmulegt að vita til þess og tillaga okkar um eflingu náms- og starfsráðgjafar tekur mjög á þessu. Öll aðstoð fagstétta innan skólanna er til þess fallin að leiðbeina börnum og unglingum til þeirra verka og til þess náms sem hugur þeirra stendur til í framhaldsskóla, en einnig til þess að þeim líði betur og þeim gangi betur að læra. Um leið aukast líkurnar á því að þau velji sér eitthvað sem þau vilja læra og þá dregur úr líkum á því að þau falli eða hætti námi áður en því lýkur.

Þá kemur einnig fram í grein Gísla að þetta skiptist eftir kynjum og drengjum líði almennt verr í skólanum. Það speglast að sjálfsögðu í mörgum öðrum samfélagsvandamálum. Ef börnum líður alltaf eða mjög oft illa í skóla eru þau miklu líklegri til að lenda í vandræðum utan skólastofunnar, hvað sem veldur því. Þau eru miklu líklegri til að fá útrás utan skólastofunnar með neikvæðum hætti og eru mun líklegri til að neyta bæði löglegra og ólöglegra fíkniefna. Þau eru miklu líklegri til að fara að drekka áfengi og neyta annarra eiturlyfja miklu fyrr en ella. Það er bara þannig. Þetta vita allir. Þau eru um leið líklegri til að lenda í öðrum vandamálum, afbrotum og slíku. Þau eru einfaldlega líklegri til að lenda utan garðs í samfélaginu og það er fullkomlega óviðunandi að tíunda hverju barni líði alltaf eða oftast illa í skólanum. Það er eitt af því sem við þurfum að bregðast við.

Þessi prýðilega þingsályktunartillaga er vandvirknisleg og vel unnin og mjög góðum rökum studd. Þar eru tekin dæmi frá öðrum Norðurlöndum, eins og Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, og þar er okkur gefin sýn á ýmsar aðferðir til að mæta þessum hlutum og úrræði ýmiss konar. Samfélagið sem við lifum í er flókið og ógagnsætt. Það er erfitt fyrir 15–16 ára ungling að ákveða hvað hann vilji gera það sem eftir er ævinnar. Það er ein af stærstu ákvörðunum í lífinu að velja sér nám, ein af allra stærstu ákvörðununum. Á þeim aldri eru nemendur að velja sér braut og af því vali ræðst kannski hvort viðkomandi einstaklingur lýkur einhverju réttindanámi eða stúdentsprófi og síðan háskólanámi eða ekki. Það hefur áhrif á ævitekjurnar, það hefur áhrif á það hvort einstaklingurinn verður ánægður eða hamingjusamur í lífinu eða ekki — þeim sem líður illa í vinnunni eða í skólanum líður líka illa þar fyrir utan. Þetta er því grundvallaratriði. Það væri fróðlegt að leggja frekara mat á hver staðan er um þessar mundir. Sá stuðull er notaður að tala um stöðugildi námsráðgjafa á hverja 300 nemendur í grunn- og framhaldsskólum. Þetta varpar boltanum til frekari umræðu um málið og ég vona innilega, af því að nú er mælt fyrir þessari þingsályktunartillögu í upphafi þings í annað sinn, að hún nái fram að ganga á Alþingi í vetur.