132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Svar við skriflegu erindi þingmanns.

[13:32]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Forseta barst síðastliðinn þriðjudag bréf frá Merði Árnasyni alþingismanni þar sem hann óskar tiltekinna upplýsinga er lúta að þeirri ákvörðun forsætisnefndar að láta rita sögu þingræðis á Íslandi og óskar jafnframt eftir því að forseti geri þinginu grein fyrir málinu.

Það hefur ekki verið venja að forseti svari skriflegum erindum sem þingmenn beina til hans úr forsetastól. Forseti hefur hins vegar fallist á að verða við tilmælum þingmannsins af tveimur ástæðum.

Í fyrsta lagi er um að ræða málefni er varða stjórnsýslu þingsins en ekki pólitísk störf Alþingis. Forseta er kunnugt um að þingmaðurinn hefði kosið að beina fyrirspurn um slíkt stjórnsýsluatriði til forseta í fyrirspurnatíma en þingsköp gera hins vegar eingöngu ráð fyrir að fyrirspurnum sé beint til ráðherra og því verður slík fyrirspurn til forseta eigi flutt.

Í öðru lagi er ekki talið heppilegt að forsætisráðherra, sem samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands fer með málefni er varða tengsl Stjórnarráðsins við Alþingi, svari fyrirspurn um ákvarðanir forsætisnefndar Alþingis þar sem um er að ræða mál sem ráðherrann hefur ekki komið að og lýtur að ákvörðunum æðstu stjórnsýslu þingsins, samanber ákvæði 9. gr. þingskapa sem segir að forseti beri ábyrgð á rekstri Alþingis og hafi æðsta vald í stjórnsýslu þess.

Ég nefni þessi atriði til að leggja áherslu á að svar mitt úr forsetastól getur ekki talist fordæmi um svör við bréflegum erindum þingmanna til forseta. Mun ég nú lesa bréf þingmannsins og svara einstökum spurningum hans.

„Á vefsetri Alþingis 28. september síðastliðinn birtist frétt um að forsætisnefnd þingsins hefði ákveðið að láta rita sögu þingræðis á Íslandi. Nokkur umræða hefur orðið um þessa ákvörðun í dagblöðum og í netmiðlum. Ég hefði kosið að kostur væri á því að beina spurningum um þetta efni til forseta Alþingis á fyrirspurnatíma en þar sem þingsköp gera eingöngu ráð fyrir að fyrirspurnum sé beint til ráðherra er slíkt ekki mögulegt nema með því að beina fyrirspurn til forsætisráðherrans um rekstur og stjórnsýslu Alþingis. Það eru því tilmæli mín til forseta að hann geri þinginu grein fyrir þessari ákvörðun með öðrum hætti. Þar sem nokkuð er um liðið frá því að ég bar þetta erindi fyrst upp við forseta vænti ég þess að það geti orðið sem fyrst.

Ég óska eftir að forseti upplýsi þingið um eftirtalið:

1. Hver eru tildrög ákvörðunar um að láta rita bók um sögu þingræðis á Íslandi?

2. Hvaða hugmyndir hefur forsætisnefnd um kostnað við ritun og útgáfu þessa rits?

3. Hvers vegna var tilteknum manni falið þetta verk? Hvers vegna var ekki auglýst eftir umsóknum fræðimanna um verkefnið?

4. Hyggst forsætisnefnd bjóða vinnslu bókarinnar út eða hefur þegar verið samið við útgáfu- eða dreifingarfyrirtæki um útgáfu eða dreifingu?“

Svör forseta við spurningum þingmannsins eru eftirfarandi:

1. Fyrir nokkrum árum eða nánar tiltekið í ársbyrjun 2000 kynnti fyrrverandi forseti Alþingis, Halldór Blöndal, þá hugmynd í forsætisnefnd að Alþingi stæði að samningu rits um sögu þingræðis á Íslandi og hlaut það góðan hljómgrunn í nefndinni. Tilefnið var að þá var fram undan aldarafmæli þingræðis hér á landi en þingræðisreglan varð virk í íslenskri stjórnskipun með skipun Hannesar Hafsteins alþingismanns í embætti ráðherra Íslands 1904. Endanleg ákvörðun um að ráðast í verkið var hins vegar ekki tekin fyrr en á fundi forsætisnefndar í byrjun september síðastliðins.

2. Á þessu stigi liggur ekki fyrir hver kostnaður við ritun verksins verður. Ætla má að verkið birtist í einu bindi og ætti það að gefa einhverja hugmynd um kostnað. Í samþykkt forsætisnefndar um ritun verksins var ritstjóra og ritnefnd falið að skilgreina í upphafi starfs síns verklag og efnistök og leggja fram kostnaðar- og tímaáætlun fyrir verkið. Tillögur og áætlanir nefndarinnar verða lagðar fyrir forsætisnefnd áður en vinna við verkið hefst.

3. Í ljósi þess að þingræðisreglan er ekki síst stjórnskipunarlegt og réttarsögulegt viðfangsefni hlýtur að teljast skynsamlegt og eðlilegt að leita eftir lögfræðingi til að hafa á hendi meginritun verksins. Að tillögu fyrrverandi forseta Alþingis, Halldórs Blöndals, var ákveðið að óska eftir því við Þorstein Pálsson sendiherra að hann tæki að sér að vera ritstjóri verksins og hafa jafnframt á hendi ritun þess að meginhluta. Þorsteinn er lögfræðingur að mennt, hefur látið sig stjórnskipunarrétt varða og situr í stjórnarskrárnefnd.

Forseta er ljóst að þótt verulegur þáttur verksins verði á sviði stjórnskipunarréttar og réttarsögu þá skarast það milli þriggja fræðigreina, lögfræði, sagnfræði og stjórnmálafræði. Þegar fyrir lá ákvörðun forsætisnefndar um að lögfræðingur yrði valinn til að vera meginhöfundur verksins var þess gætt að fræðimenn á öðrum sviðum kæmu að mótun efnis og ritun þess. Forsætisnefnd ákvað í framhaldi af því að skipa tveggja manna ritnefnd sem hefði ásamt ritstjóra umsjón með verkinu. Í ritnefnd voru skipuð Helgi Skúli Kjartansson, prófessor í sagnfræði við Kennaraháskóla Íslands, og dr. Ragnhildur Helgadóttir, lektor og stjórnskipunarfræðingur við Háskólann í Reykjavík. Jafnframt hefur forseti ákveðið að fela dr. Þorsteini Magnússyni, stjórnmálafræðingi og forstöðumanni á skrifstofu Alþingis, að vera ritnefnd til aðstoðar af hálfu skrifstofu þingsins.

4. Fyrir liggur að ætlunin er að Alþingi gefi ritið út en þegar texti verksins liggur fyrir verður kannað hvaða útgáfufyrirtæki bjóða hagstæðustu kjör líkt og tíðkast hefur þegar Alþingi hefur ráðist í útgáfu annarra verka. Má í því sambandi minna á útgáfu ritsins um sögu kristni á Íslandi í eitt þúsund ár sem Alþingi gaf út og Hið íslenska bókmenntafélag annaðist dreifingu á.