132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Ritun sögu þingræðis á Íslandi.

[13:51]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg ótrúlegur misskilningur sem er hér á ferðinni og kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Sá sem fenginn hefur verið til þessa verks er ekki að fara að skrifa sína eigin sögu. Hann er að fara að skrifa um sögu þingræðisins á Íslandi. Þorsteinn Pálsson er mjög faglega hæfur til að rita sögu þingræðis á Íslandi. Hann er lögfræðingur, hann er fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hann er fyrrverandi forsætisráðherra, hann er fyrrverandi ritstjóri og hann er vandur að öllu því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Með honum í ritnefnd verða mjög faglegir aðilar eins og hann, Helgi Skúli Kjartansson og Ragnhildur Helgadóttir.

Talandi um fúsk, hæstv. forseti, þá legg ég til að hv. þm. Sigurjón Þórðarson taki þau orð og geri þau fyrir sjálfan sig. Ég segi bara: Maður, líttu þér nær. (Gripið fram í: Berðu af þér sakir.) (SigurjÞ: Ég er líffræðingur.)

Það er fagnaðarefni að Þorsteinn Pálsson skuli hafa verið fenginn til þessa verks. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson sagði að hér væri fúsk á ferð. Ég segi: Maður, líttu þér nær. Þorsteinn Pálsson er ekki fúskari, hann er vel menntaður og vel til verksins fallinn og það mun verða sómi að því sem hann gerir eins og öllu því sem hann hefur gert.