132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Ritun sögu þingræðis á Íslandi.

[13:53]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er fullkominn misskilningur að ég haldi, eða einhverjir aðrir hér í salnum, að fyrrverandi stjórnmálamenn séu ekki hæfir til ýmissa verka. Tökum nú bara sjálfan Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Er einhver hér í salnum sem efast um hæfni Ólafs Ragnars Grímssonar? Það er ekki svo.

Hins vegar er rétt að þegar menn fást við viðfangsefni sem krefjast faglegrar þekkingar og færni þá hafi þeir sýnt fram á slíka færni og slíka þekkingu áður en þeir eru valdir umfram aðra til þess að gera á kostnað ríkisins þá ritgerð eða þá bók sem hér um ræðir. Ég er að gagnrýna að ekki skuli hafa verið leitað til fræðimanna allra á þeim sviðum sem hér um ræðir og síðan valinn sá hæfasti af þeim. Það er það sem ég er að gagnrýna.

Enn er hægt, forseti, að bjarga þessu máli. Það er hægt að gera það með því að forsætisnefnd beri undir þingið allt þetta mál, í þingsályktunartillögu frá nefndinni eða frá forsetanum sjálfum, eins og það liggur fyrir þegar leiðbeinendurnir þrír og meistaraneminn Þorsteinn Pálsson leggja fram áætlun sína um kostnað og tilhögun verksins. Það er auðvitað fróðlegt að vita hvað Þorsteini Pálssyni finnst um þingrofið 1931 eða myndun ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens þannig að maður nefni tvö dæmi um það þegar reynt hefur á þessa þingræðisreglu.

En er Þorsteinn Pálsson of góður til þess að búa til sitt eigið handrit og fara með það til bókaforlaganna, Eddu – útgáfu, JPV, Hins íslenska bókmenntafélags o.s.frv., o.s.frv.? Er það þannig að Alþingi þurfi á því að halda að taka við, það sé svo illa komið fyrir byrjendum í fræðiritun á landinu að Alþingi ætli sér að taka við handritum frá þeim þegar þeim þóknast og þegar fræðimennirnir, þegar byrjendurnir í fræðimennsku, eru þá sérstaklega þóknanlegir forseta Alþingis og forsætisnefnd? Ég segi nei við því. Ég vil fá að ræða það hér með venjulegum, þinglegum hætti í umræðu um þingsályktunartillögu forseta og forsætisnefndar, ef vill, og ég skora á þessa ágætu þingmenn og háttvirta að gera það.