132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Ritun sögu þingræðis á Íslandi.

[13:56]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það er tvennt sem mér þykir athyglisvert í þessu máli að fá upplýst. Það er í fyrsta lagi að fá upplýsingar um það hvort fulltrúar stjórnarandstöðunnar í forsætisnefnd frá árinu 2000 til dagsins í dag hafa gert einhvern ágreining um þá ákvörðun sem við erum að fjalla hér um og meðferð hennar. Hefur einhver fulltrúi stjórnarandstöðuflokkanna gert einhvern ágreining í þessu máli? Ég veit ekki til þess. Það væri þá ágætt að fulltrúar stjórnarandstöðunnar og samflokksmenn hv. þm. Marðar Árnasonar gæfu sig fram og skýrðu út sín sjónarmið til þess máls.

Svo langar mig til að víkja orðum mínum til hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar vegna þess að mér þykir miður að menn skuli leyfa sér að nota eða misnota, leyfi ég mér að segja, ræðustól Alþingis með þeim hætti sem hér hefur verið gert til þess að sverta mannorð Þorsteins Pálssonar og draga í efa hæfileika hans og þekkingu til þess að skrifa sögu þingræðis á Íslandi. Þetta eru einhverjar vafasömustu og vitlausustu fullyrðingar sem ég heyrt síðan ég settist hér inn á þing.Við erum að tala hér um það að það er lögfræðingur sem verður fenginn til þess að rita þessa sögu og fara yfir sögu þingræðisins og þetta er ekki bara hver sem er heldur fyrrum forsætisráðherra á Íslandi og maður sem jafnframt hefur gegnt embættum dóms- og kirkjumálaráðherra og sjávarútvegsráðherra og hefur þar af leiðandi um árabil verið hluti af löggjafarvaldinu hér á Íslandi og framkvæmdarvaldinu og hefur tekið þátt í að praktísera þingræði. Ef slíkur maður hefur ekki þekkingu til þess að skrifa sögu þingræðis á Íslandi þá hefur það enginn. (Gripið fram í.)