132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Skipulag ákæruvalds í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar.

[14:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er full þörf á þessari umræðu. Hér á grundvallarmál í hlut og auk þess stórt og mjög umtalað. Ég held að það sé ástæða til að leggja á það áherslu í fyrsta lagi að hæstv. dómsmálaráðherra ber hina pólitísku og stjórnskipulegu ábyrgð á málaflokknum sem í hlut á. Þess vegna er ekki bara hægt að skoða stöðu hans eða aðild að þessu tiltekna máli þröngt og einangrað.

Hæstv. ráðherra ber þar með ábyrgð á, pólitíska og stjórnskipulega ábyrgð, eftir atvikum lagalega ábyrgð, samanber lög um ráðherraábyrgð, á framgöngu undirmanna sinna og eigin stjórnsýslu í þessum málaflokki. Hæstv. ráðherra getur ekki sett sjálfan sig til hlés eða skipt sér út af í þeim efnum.

Í öðru lagi finnst mér mikilvægt að farið verði yfir það rækilega í framhaldi af þessari umræðu hvort ástæða sé til að gera skipulagsbreytingar og aðskilja með skýrum hætti rannsókn máls annars vegar og ákæruþáttinn hins vegar.

Í þriðja og síðasta lagi finnst mér að hæstv. dómsmálaráðherra gerði rétt í því að hugleiða það mjög vandlega hvort það sé ekki bæði málinu og honum til framdráttar að hann fái annan ráðherra settan í það hlutverk að skipa nýjan saksóknara, jafnvel þó ég geti tekið undir með hæstv. ráðherra og hv. málshefjanda að það á ekki að lenda út í ógöngur í þeim efnum að telja ráðherra endalaust vanhæfa þó þeir hafi tjáð sig í pólitískri umræðu um mál. En hér á ekki alveg venjulegt mál í hlut og í bakgrunni þess liggja umræður um hluti sem ganga það nærri ráðherranum sjálfum og flokki hans að það undrar mig dálítið að hæstv. ráðherra skuli ekki, bæði sjálfs sín vegna og annarra og vegna framvindu málsins, einfaldlega velja þennan kost þó að hann telji sig alls ekki knúinn til þess af einhverjum augljósum eða rökstuddum vanhæfisástæðum.