132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:06]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér er hæstv. samgönguráðherra að mæla fyrir frumvarpi til laga um fjarskiptasjóð. Það hefði verið óþarfi ef þjóðin hefði áfram átt Landssímann og getað beitt honum til þess að koma á öflugu fjarskiptakerfi um allt land, en ríkisstjórnin velur að einkavæða fjarskiptin og síðan að reyna að bæta í götin sem koma.

Ég leyfi mér að spyrja ráðherra: Hvers vegna er þessu fjármagni ekki hreinlega deilt út á fjárlögum og þá í samræmi við fjarskiptaáætlun eins og hún liggur fyrir, hliðstætt því sem gert er með fjármagn til vegamála þó að vegamál séu náttúrlega alfarið í höndum ríkisins. Engu að síður ætlar ríkið þarna að fara að axla ábyrgð á fjarskiptaþjónustu sem ekki er talin arðbær. Ég vil því spyrja ráðherra hvort það hefði ekki verið miklu skynsamlegra að setja þetta með beinum hætti inn í gegnum fjárlögin en sleppa því að vera að búa til apparat eins og þennan fjarskiptasjóð, sem mun náttúrlega bara lengja á stjórnsýslunni og taka til sín eigið fé.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja ráðherrann að því hvernig á að draga mörkin á milli þeirrar þjónustu sem er arðbær og þeirrar þjónustu sem er óarðbær og hvernig ætlar þá þessi sjóður að ákvarða hvenær hann kemur inn og hvenær hann ekki kemur inn? Síminn eða önnur fjarskiptafyrirtæki munu náttúrlega setja hámaksarðsemiskröfu á alla sína starfsemi eins og við þegar höfum orðið vitni að, t.d. með lokun þjónustustöðvarinnar á Blönduósi. Hvar verða þessi mörk dregin og hvenær kemur ríkið inn?