132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:18]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef áður greitt hér atkvæði með stofnun fjarskiptasjóðs en ég verð að segja það enn einu sinni að því fylgir eiginlega að betra er seint en aldrei vegna þess að nokkrum sinnum hef ég komið í þennan ágæta ræðustól og fjallað um það sem hér á að gera núna með fjarskiptasjóðnum. Ég er, virðulegi forseti, að reyna að segja að ég er þeirrar skoðunar að þetta átti að vera búið að gera fyrir lifandi löngu, sérstaklega t.d. með háhraðatengingar til ýmissa smærri staða á landsbyggðinni sem hafa setið eftir og ekki setið við sama borð og aðrir landsmenn vegna þess að þar hafa menn ekki átt aðgang að háhraðatengingum fyrr en þá í framhaldi af stofnun þessa sjóðs. Þess vegna segi ég: Betra seint en aldrei.

Auðvitað var mikið misræmi í því og misrétti sem fólk var beitt í þessum efnum. Fólk t.d. á hinum ýmsu smástöðum úti á landi átti þess ekki kost að fá háhraðatengingar frá Símanum vegna þess að ekki nógu margir notendur ætluðu að kaupa þjónustuna. Síminn taldi það með öðrum orðum ekki arðbært. Þá hafa þeir ekki setið við sama borð og aðrir t.d. við að stunda fjarnám eða börnin við að nýta sér tækni netsins og það sem það hefur upp á að bjóða. Ekki þurfum við lengur að ræða það, virðulegi forseti, að dálítið mikill munur er á því að hafa háhraðatengingu eða lélegar nettengingar sem maður helst ekki fer inn á þegar maður hefur ekki aðgang að háhraðatengingunum.

Virðulegi forseti. Ég segi að það er gott að festa það inn og ég taldi það nauðsynlegt að þegar talað er um að setja í þetta peninga frá sölu Símans að gera það eins og hér er gert í sérstakan fjarskiptasjóð. Ég hef lýst því áður og skal endurtaka það hér og nú vegna þess að mér finnst það til bóta að sjóðurinn er til og það er búið að eyrnamerkja fé í þetta sem að sjálfsögðu þarf að sækja í fjárlög hvers árs eins og hér hefur komið fram, en að það sé gert þannig að sitjandi ríkisstjórn hvers tíma á erfiðara með að draga hugsanlega úr þessum upphæðum við fjárlagagerð. Hér á að ganga í verkefni sem eru löngu tímabær, t.d. uppbyggingu GSM-senda á hringveginum og dreifingu stafræns sjónvarps um gervihnött til sjómanna og annarra plús þessar háhraðatengingar sem ég hef gert að umtalsefni.

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í stuttu andsvari mínu við hæstv. ráðherra um stjórn sjóðsins og verkefnastjórn að það er ljóst að þetta á bara að vera fimm manna stjórn sem er stjórn sjóðsins og jafnframt verkefnastjórn. Ég er hlynntur því vegna þess að það er einfaldari stjórnsýsla. Það er nóg að hafa fimm manna stjórn sem jafnframt er verkefnastjórn þannig að í raun er kannski einu orði ofaukið í athugasemdunum sem mátti misskilja. En þetta hefur komið fram í andsvari hæstv. ráðherra.

Ég vil líka segja að ég lít svo á að stjórnin, sem jafnframt á að ávaxta tekjur sjóðsins, hafi þá heimild til þess að dreifa þeim ávöxtunarmöguleika eða þeirri stýringu sem hún á að hafa á þeim peningum þannig að takast megi að ávaxta pund sjóðsins, ef svo má að orði komast, eins mikið og hægt er og þess vegna að semja við fjármálafyrirtæki án þess að tekin sé of mikil áhætta, þ.e. að ávaxta þessar tekjur þannig að við getum vafalaust gert meira úr þeim. Ég lít svo á, virðulegi forseti, að þessar upphæðir verði greiddar inn í fjarskiptasjóð og að sjóðurinn fái að njóta ávaxta þess en að ekki verði bara greitt út úr ríkissjóði þegar fé vantar til að greiða út úr sjóðnum við ákveðin verkefni.

Virðulegi forseti. Til að hafa sagt það líka hér þá er verið að fara í útboð á þessum rásum og á þessari þjónustu sem vantar víða og það er ekkert ólíkt því sem við gerum á ýmsum öðrum sviðum, t.d. því að bjóða út áætlunarflug til nokkurra staða, smástaða, á landinu sem flugfélög treysta sér ekki til að halda uppi arðbæru flugi til og það er styrkt með fé úr ríkissjóði. Það sama erum við að gera núna með almenningssamgöngurnar. Þar hefur nýlega farið fram útboð þar sem fé kemur úr ríkissjóði til að styrkja þær áætlunarleiðir, en viðkomandi aðilar sem í það bjóða þurfa hins vegar að festa sig undir ákveðin skilyrði um ferðafjölda og annað slíkt. Þess vegna er ég hlynntur því sem hér er gert, virðulegi forseti, og vil jafnframt segja að ég vildi óska þess að hæstv. ríkisstjórn hefði þessa sömu skoðun og væri tilbúin að fara þessa sömu leið varðandi strandsiglingar við Ísland. En mér virðist ríkisstjórnin ekki hafa áhuga á því. Ég nefni þetta, virðulegi forseti, vegna þess að tækifærið gefst. Ég er hiklaust þeirrar skoðunar að við eigum að fara þá leið að bjóða út strandsiglingar til ákveðinna staða á landinu m.a. til að minnka flutninga á þjóðvegakerfi landsins, draga flutninga af þjóðvegum og á sjóinn aftur. Þetta á að bjóða út. Ég tel að skipafélögin mundu slást um það, ef svo má að orði komast, að halda þeim flutningum. Þó svo að það mundi hafa nokkurra tuga milljóna kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð að styrkja þessar strandsiglingar þá held ég að það komi margfalt til baka í minna vegsliti á þjóðvegum landsins, að ég tali ekki um minni slysahættu.

Virðulegi forseti. Nóg um þetta. Þetta gerist í framhaldi af sölu Símans. Við fengum mikla peninga við sölu Símans. Ég get alveg tekið undir hún að tókst vel og við fengum mikla fjármuni fyrir Símann sem betur fer úr því að við fórum þessa leið. Ég tek enn einu sinni fram að ég var hlynntur sölu samkeppnishluta Símans. Hins vegar vil ég líka nota tækifærið og segja að ég óttast að við munum sjá á næstu missirum, einu og hálfu ári, að starfsmönnum Símans fækki mjög mikið. Ég hef heyrt tölur nefndar, 200, 250 jafnvel 300 manns sem verða þá fórnarlömb hagræðingarkröfu nýrra eigenda sem borguðu mikið fé fyrir Símann og því miður kemur þetta sennilega mjög mikið niður á landsbyggðinni. En vonandi verður það þannig að Síminn kaupi þá þjónustu af öðrum aðilum á landsbyggðinni eftir þetta. Þessi sjóður er að sjálfsögðu stofnaður í framhaldi af þessu. Ég segi: Það mátti gera þetta fyrr. Lokaorð mín eru því: Betra seint en aldrei.