132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:28]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Guð forði okkur frá því að taka upp ríkisstyrkta skipaútgerð á ný enda er ég ekki að tala um það. Hún kemur aldrei aftur. Hins vegar hef ég sagt að hægt sé að skoða það hvort strandsiglingar muni ekki koma í kjölfarið á útboðsleiðinni og kannski samkeppni þessara tveggja flutningafyrirtækja sem eru á markaðnum í dag, þ.e. ákveðið siglingaprógramm meðfram ströndinni sem tengja má svo til annarra staða með akstri. Ég held að þessi leið sé fær. Ég bendi á að sennilega fara hæstu styrkir úti í Evrópu og í nágrannalöndum okkar sem ríkisstjórnir veita til flutningastarfsemi hvort sem það er til járnbrautarlesta eða annars og með öllum þeim flutningum sem því fylgir.

Herra forseti. Mér finnst voðalega skrýtið ef menn þurfa að flytja t.d. 40 feta gám fullan af frosnum fiski að það þurfi endilega að gerast á fjórum til fimm tímum eftir þjóðvegakerfi landsins. Ég held að það væri hægt að skipuleggja flutningana öðruvísi en að gera það svoleiðis. Ég bendi t.d. á, virðulegi forseti, að menn geta lestað gám í einhverri höfn, híft hann til vinstri og sett á flutningabíl. Þá ber hann engin gjöld til hafnarinnar. En ef hann er hífður til hægri um borð í flutningaskip þá ber hann alls konar gjöld um leið og hann fer í skipið. Við þurfum því kannski líka að skoða í leiðinni gjaldskrár hafna og annað slíkt. Þar blandast t.d. inn í það sem hv. þingmaður og stjórnarmeirihlutinn tók þátt í, þ.e. að breyta lögum um hafnir. Ég viðurkenni að menn eru nú farnir að tala um að fresta því eitthvað. Þar var gerð töluverð árás á hafnirnar, því miður. En ég hygg að við hv. þingmaður séum sammála um leiðina. En guð forði mér frá því að taka hér þátt í umræðu um ríkisstyrkta skipaútgerð. Það er ekki ætlunin.