132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:32]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf kannski ekki að bæta miklu við, mér heyrist vera samhljómur á milli okkar hvað þetta mál varðar. Það er alveg rétt eins og hér hefur verið sagt að gjaldskrá hafna var mjög há miðað við lestun á flutningabíla eins og ég tók dæmi um og það er auðvitað ein af ástæðunum fyrir því að strandsiglingar lögðust niður.

Mig langaði, virðulegi forseti að spyrja, og kannski gefst tækifæri til að svara því á eftir þó að við séum að ræða um fjarskiptasjóðinn og þetta blandist inn í það, hvort hv. þingmaður geti ekki verið sammála mér um að fara útboðsleiðina með strandsiglingarnar líkt og við gerum með fjarskiptasjóðinn, almenningssamgöngurnar og flugið til nokkurra staða á landinu. Þarna erum við komin með módel, sem ríkisstjórnin hefur samþykkt í þessum tilteknu atriðum og stundum við aðrir þingmenn, til að freista þess að taka upp strandsiglingar aftur með því að bjóða þær út og sjá hvað gefa þyrfti með þeim, ef svo má að orði komast. Sparnaðurinn kæmi margfalt til baka í ríkissjóð í minna vegsliti á þjóðvegum landsins og þar af leiðandi minna viðhaldi vegna þungaflutninganna að maður tali ekki um að slysahættan minnkaði.