132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:41]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði ekki í ræðu minni að þjónustan væri alls staðar góð. Það er hún ekki og mun líklega aldrei verða það. Ég held að við munum aldrei geta veitt fullkomnustu þjónustu alls staðar, ég tel það mjög ólíklegt, en þjónustan hér á landi hefur verið mjög góð miðað við öll önnur ríki sem við miðum okkur við. Ég var að koma því á framfæri áðan.

Aðgengi að háhraðatengingum hérlendis er með því besta í heiminum og netnotkun er óvíða eins útbreidd og hér. Við höfum staðið mjög vel að þessum málum en auðvitað vilja þeir sem búa t.d. þar sem aðgengi að háhraðatengingum hefur ekki verið fyrir hendi fá betri þjónustu. Að sjálfsögðu. Við settum hins vegar í lög á sínum tíma ákvæði um alþjónustu og slíkt ákvæði er, miðað við þær upplýsingar sem ég hef, hvergi að finna annars staðar hjá öðrum ríkjum. Við settum fram miklar kvaðir og miklar kröfur um þjónustu fyrir íbúa á Íslandi og með fjarskiptasjóði getum við tekið viðbótarskref. Í fjarskiptaáætlun sem þingheimur samþykkti á síðasta þingi settum við okkur mjög háleit markmið um háhraðatengingar fyrir landsmenn með ákveðnum undantekningum væntanlega því líklega verður aldrei hægt að ná hverjum einasta bæ, ég á ekki von á því, og einnig á að GSM-væða hringveginn og fjölsóttustu ferðamannastaði. Ég tel að við séum að stíga hér miklu framsæknara skref en nokkurt annað ríki og við megum vera stolt af því.

Ég vil líka ítreka að Framsóknarflokkurinn setti fram ákveðnar óskir þegar Landssíminn var seldur, m.a. um að komið yrði til móts við þessar tengingar úti á landi. Það varð niðurstaðan og við höfum átt mjög gott samstarf við Sjálfstæðisflokkinn um að setja á stofn þennan fjarskiptasjóð og það ríkir mjög mikil samstaða um hann. En við settum fram alveg sérstakar óskir í þessu sambandi í upphafi og þær eru að verða að veruleika núna.