132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um fjarskiptasjóð sem er eitt afsprengi svokallaðrar símasölu sem hér hefur líka verið rædd. Ég tel vert að rifja upp að í skoðanakönnunum í aðdragandanum að sölu Símans var afgerandi meiri hluti þjóðarinnar andvígur því að grunnfjarskiptakerfi Símans yrði selt. Síðasta skoðanakönnun, í mars síðastliðnum, sýndi að nærri 80% væru andvíg því.

Meira að segja eftir að Síminn hafði verið seldur, þegar búið var að útbúa svokallaðan jólagjafapakka þar sem öllu sem hefur verið vanrækt á undanförnum árum var raðað inn, kom fram í Gallup-könnun að stærsti hluti þeirra sem svaraði teldi að óskynsamlegt hefði verið að selja Símann. Menn vildu að hann yrði áfram í þjóðareigu. Ég tel mikilvægt að halda þessu til haga enda eru fjarskiptin einn af öflugustu og mikilvægustu þáttum samfélags okkar til að byggja upp samkeppnishæft og framsækið samfélag um allt land. Þess vegna hefði að mínu mati verið mikilvægt að grunnfjarskiptakerfið héldist áfram í eigu þjóðarinnar og því beitt til að ná þessum markmiðum.

Það var ekki svo að Síminn væri rekstrarlegur baggi á ríkinu, fjarri því. Hann hefur að jafnaði skilað 2–3 milljarða kr. arði í ríkissjóð á undanförnum árum. Auk þess var sérstaklega tekinn arður út úr Símanum upp á rúma 6 milljarða kr. Þetta var því jafnframt einn af sterkustu tekjustofnum ríkissjóðs sem þar var kastað burt. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt til að þjóðin hefði átt Símann og beitt þessum milljörðum, þeim peningum sem komu í gegnum arð, til að styrkja og efla fjarskiptakerfið um allt land. Hæstv. ráðherra tókst ekki að selja Símann á árinu 2001 og 2002. Síðan þá er talið að Síminn hafi hækkað um 20–30 milljarða kr. Hvað hefði orðið ef við hefðum átt hann áfram. Þegar hæstv. ráðherrar og þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hæla sér af sölu Símans þá held ég að þeir ættu að tala mjög varlega. Þjóðin sér í gegnum þann loddaraleik.

Hv. þm. Kristján L. Möller fagnaði sölu Símans og fannst hún hafa gengið vel og verið góð, og það verið gott að fá þetta. Ég minnist þess einnig að hv. þingmaður fagnaði líka markaðsvæðingu raforkukerfisins þegar hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins mælti fyrir því, þá fagnaði hv. þm. Kristján Möller líka. En svo, þegar í ljós kom að markaðsvæðingin þýddi stórhækkun á rafmagnsverði um allt land og gríðarlegar hækkanir í byggðum fjarri meginþéttbýlinu þá sneri hv. þingmaður við blaðinu og varð andvígur markaðsvæðingu raforkukerfisins. Ég held að hv. þm. Kristján L. Möller ætti að fara varlega, varaþingflokksformaður Samfylkingarinnar, í að fagna markaðsvæðingu fjarskiptaþjónustu og bíða og sjá hvað gerist. Það tókst ekki svo hönduglega til þegar hann fagnaði markaðsvæðingu raforkukerfisins.

Staðreyndin er sú að bæði hérlendis og erlendis þýðir markaðsvæðing og einkavæðing á grunnþjónustu til almennings yfirleitt hærra verð og lélegri þjónustu, sérstaklega í dreifbýli. Þannig er það, því miður. Meginmarkmiðið með þessu frumvarpi er að reyna að bæta þar úr, reyna að stoppa í verstu götin, vanræktu framkvæmdirnar sem markaðsvæðing eða einkavæðing fjarskiptanna hefur í för með sér. Það er virðingarverð viðleitni. Ég tek undir þau sjónarmið sem í þessu frumvarpi eru um að ná fram skilgreindum markmiðum í að bæta og efla fjarskiptaþjónustuna, háhraðatenginguna og GSM-þjónustuna, um allt land innan mjög skilgreinds tíma. Ég tek undir að mikilvægt er þannig að þau markmið nái fram að ganga og að þau hefðu átt að nást með því að Síminn væri í eigu þjóðarinnar. Þá hefðum við það auðvitað frekar í hendi okkar í stað þess að reka tvöfalt kerfi, annars vegar markaðsvætt kerfi og hins vegar ríkisstutt.

Ég velti fyrir mér stofnun fjarskiptasjóðs, með þeim hætti sem hér er gert, að búa til eins konar ríkisstofnun, sjálfstætt ríkisfyrirtæki sem ekki á að lúta beint vilja Alþingis. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er ætlunin að það fjármagn sem úthlutað er úr fjarskiptasjóði fari í gegnum fjárlög eða er ætlunin að það fari beint úr sjóðnum og til einstakra verkefna, þ.e. að bara sjóðstjórnin og ráðherra ráði þar?

Ég hef ekkert út á það að setja, frú forseti, úr því að Síminn var seldur, að ákveðið fjármagn skuli lagt til hliðar til að efla fjarskiptakerfið. Úr því að menn fóru þá óskynsamlegu leið að selja Símann þá finnst mér það hafa verið góð ákvörðun. En ég hefði talið að leggja ætti fjármagnið til hliðar og veita það í gegnum fjárlög, í gegnum fjarskiptaáætlun, sem fengi þar með hliðstæða stöðu og vegáætlun. Hún yrði pólitískt afgreidd á Alþingi og forgangsröðin ákveðin þar. Eins og við þingmenn þekkjum koma langflestar sveitarstjórnir, af öllu landinu, með erindi inn til Alþingis um að bæta fjarskiptakerfið, bæta GSM-þjónustuna, bæta háhraðatenginguna o.s.frv. Það er því enn, að ég tel, eitt af stærri málum Alþingis, að bæta og efla fjarskiptakerfið um allt land. Ég tel að það eigi að vera á ábyrgð Alþingis. Ég tel að þessi sjóður, sem hér er verið að stofna og verkefni hans, eigi að vera á ábyrgð Alþingis og fá stjórnsýslulega meðferð í gegnum fjárlögin. Ég teldi annað fyrirkomulag gagnrýnisvert og vil að útdeiling fjármunanna fari í gegnum Alþingi eins og fjárlög.

Eins og fram kom í andsvörum áðan var hlutverk sjóðsins að koma inn og standa að framkvæmdum við svokallaðar óarðbærar framkvæmdir í fjarskiptum. Hver á að skilgreina hvað er óarðbært? Það er Póst- og fjarskiptastofnun, segir hæstv. ráðherra. Þá veltir maður fyrir sér hvaða arðsemiskrafa verður lögð þar til grundvallar. Hvernig á að meta hvaða framkvæmd er arðbær og hver er óarðbær? Það verður ekki einfalt mál. Þetta fjármagn á fyrst og fremst að nota til stofnkostnaðar. Því er ekki ætlað að koma inn í rekstur um ótakmarkaðan tíma. Ef hæstv. ráðherra vill meina, með sinni óbeinu þátttöku í umræðunni, að fjarskiptasjóður eigi líka að koma að rekstri þá fer málið að vandast. Þá erum við komin með tvöfalt fjarskiptakerfi. Annars vegar óarðbæra fjarskiptakerfið sem ríkið á að standa að meira eða minna leyti að, leggja til stofnkostnað og sinna rekstri, og hins vegar hið arðbæra fjarskiptakerfi sem aðrir vilja reka. En einmitt þessi uppsetning er mjög varhugaverð. Auðvitað reyna fjarskiptafyrirtæki á samkeppnismarkaði að hala inn peninga frá ríkinu en eins og við vitum er ekki um neina samkeppni að ræða víða úti á landi. Ef það hefði verið raunveruleg samkeppni í fjarskiptum þá hefði Síminn ekki lokað starfsstöð sinni á Blönduósi eða á Siglufirði. Við vitum það. (Samgrh.: Samkeppnin er góð.) Samkeppnin er góð, ég tek alveg undir það, þar sem hún er virk. Þar er samkeppnin góð. En einkavædd einokun í þjónustu á grunnfjarskiptakerfi eins og Símanum er slæm. Það er bara svo einfalt.

Ég held að við stöndum frammi fyrir því að ríkið ætli að reka óarðbært fjarskiptakerfi en fjarskiptafyrirtæki á markaði reki fyrirtæki sem eru talin arðbær. Við erum komin með tvöfalt kerfi.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra eftir hverju verði farið þegar menn setja sér áætlun. Verður t.d. farið eftir þeirri ágætu þingsályktunartillögu sem var samþykkt í fyrra, þingsályktunartillögu sem hæstv. ráðherra samgöngumála lagði fram um stefnu og áfanga í fjarskiptamálum? Þar er tímasett, virðulegur forseti, að GSM-farsímaþjónusta verði aðgengileg á þjóðvegi eitt og öðrum helstu stofnvegum, á helstu ferðamannastöðum og minni þéttbýlisstöðum fyrir árið 2006. Verður staðið við það? Verður staðið við það sem stendur í áætluninni sem Alþingi samþykkti, frú forseti? Það eru bara nokkrir mánuðir síðan við samþykktum þessa áætlun. Hún var samþykkt samhljóða í þinginu, að rétt væri að ná þessum markmiðum. Verður stafrænt sjónvarp og háhraðanet boðið út árið 2005? Árið 2005 mun senn liðið. Einnig segir að allir grunnskólar verði tengdir öflugu háhraðaneti og við það náist ákveðinn áfangi árið 2006, sem er skilgreindur og annar árið 2007. (Gripið fram í: Nokkuð gott.) Já, enda var þessi áætlun sett fram og samþykkt samhljóða á Alþingi fyrir nokkrum mánuðum, á síðasta vorþingi. Er ætlunin að standa við hana?

Ég vil að hæstv. ráðherra svari með hvaða hætti verður staðið við tímasetta fjarskiptaáætlun, um aðgerðir í fjarskiptamálum sem við samþykktum á vorþingi. Það sem skiptir máli er það sem gert er en ekki það sem menn setja á blað og segjast ætla að gera í framtíðinni.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg fleiri orð um málið. Ég vil þó spyrja hæstv. ráðherra: Er meiningin að GSM-þjónustan verði hluti af öryggiskerfi þjóðarinnar? Hér er talað um hve mikilvæg GSM-þjónustan sé í öryggisskyni. Það er heimild til þess í fjarskiptalögum að skilgreina ákveðna þætti sem öryggismál. Þá eru þeir meðhöndlaðir sem slíkir. Eitt af því eru fjarskiptin sem hafa grundvallarþýðingu fyrir öryggi íbúa og vegfarenda hvar sem er á landinu og sem allra víðast. Það á ekki síst við um GSM-farsímaþjónustuna. Við þekkjum dæmi frá því í haust að menn voru hætt komnir í Húnavatnssýslu, norður á Ströndum, vegna slyss. Fjarskiptaþjónustan var ekki fyrir hendi og hvorki hægt að ná í lækni né sjúkraaðstoð. Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Er meiningin að GSM-farsímaþjónustan verði hluti af þessu öryggiskerfi, meðhöndluð sem slík og tryggt að hún nái til landsmanna í það ríkum mæli að hún veiti raunverulegt öryggi? Ég tel það mikilvægt.

Ég tel að GSM-farsímaþjónustan eigi að vera hluti af öryggisviðbúnaðinum. Það er dæmi út af fyrir sig að þegar á reyndi á Ströndum að þá virkaði ekki farsímaþjónustan en það er annað mál. En það sýnir að máli skiptir að GSM-farsímaþjónustan verði hluti af öryggiskerfi þjóðarinnar og byggt upp sem slíkt.

Frú forseti. Ég hef rakið málið og tel að úr því að farið er út í að stofna fjarskiptasjóð, eða taka frá fjármagn á sölu Símans til að byggja upp fjarskiptin sem við teljum í sjálfu sér skynsamlegt, sé eðlilegra að útdeila því fé samkvæmt fjarskiptaáætlun sem hluta af öðrum framkvæmdaáætlunum sem þingið lætur vinna eins og vegáætlun, flugmálaáætlun o.s.frv. Ég tel að fjármagninu ætti að úthlutað eftir því í stað þess að búa til nýjan millilið, nýja stofnun sem muni starfa á eigin vegum. Ég tel að skynsamlegast hefði verið að skoða hvort ekki ætti að fela öflugu ríkisþjónustufyrirtæki, eins og Vegagerð ríkisins, sem er með sérfræðinga á sínum snærum og umfangsmikla þjónustu, ber ábyrgð á stórum hluta af umferðaröryggismálum sem fjarskiptin eru, að bjóða út og halda utan um málið að öðru leyti. Þá þyrfti ekki að búa til nýja stofnun um þessi mál en framkvæmdaáætlun og úthlutun fjármagns færi að öðru leyti í gegnum Alþingi sem bæri endanlega ábyrgð á þeirri úthlutun.