132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:18]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til að mæla fáein orð um þetta mál. Hér ætla menn að reyna að sjá til þess að þjónusta Símans, sem áður var, og þeirra aðila sem hafa komið inn á það svið, verði til staðar fyrir sem allra flesta í landinu og það er ekkert nema gott um það að segja. Ég vil hins vegar koma því til skila hér, og alveg sérstaklega til nefndarmanna sem munu fjalla um þetta mál, að vandlega verði rætt við aðra aðila á markaði um þessar framkvæmdir. Það er nefnilega ekki einfalt að bjóða út nýjar viðbætur við þetta kerfi og rekstur á þeim. Síminn er í einokunaraðstöðu, hann er í fákeppnisaðstöðu. Það er bara eitt annað fyrirtæki, sem stendur undir nafni, í keppni við hann. Síminn er með 75% af markaðnum, eða hvað það nú er, og hitt fyrirtækið með yfir 20%. Það er sem sagt alla vega yfir 70% og yfir 20% markaðshlutdeild, það er yfir 90% hjá þessum tveimur aðilum.

Hverjir geta þá keppt, þegar ráðist verður í að bjóða út viðbætur við þetta kerfi? Hvernig fer sú verðlagning fram? Ég ímynda mér að það geti verið freistandi fyrir stóru fyrirtækin á þessu sviði að láta það bíða svolítið að ráðast í viðbætur við kerfin, jafnvel þó að möguleiki sé til þess að slíkar viðbætur geti staðið undir sér, vegna þess að þau eiga von í því að ríkissjóður borgi brúsann. Það er full ástæða til þess að hafa gætur á þessu og einnig á því að ekki er endilega víst að útboðin sem fara fram skili einhverju skynsamlegu verði. Ég held að það þurfi að hafa opna möguleika á því að meta alveg sérstaklega tilboð í viðbætur af þessu tagi vegna þess að þeir sem koma til með að bjóða í verkið, sem eru þá fyrst og fremst þessi tvö stóru fyrirtæki, bjóða ekki eingöngu út frá því hvað er hagkvæmt fyrir þau heldur hlýtur það að hafa áhrif hve langt þeir telja sig komast gagnvart þeim aðila sem er að bjóða út. Aðrir eiga minni möguleika á því að bæta við þessi kerfi en þeir sem þar eru fyrir. Nefndin þarf að fá betri mynd af þessum vanda með því að ræða við þá litlu aðila sem eru á markaðnum, hvernig hægt sé að ganga úr skugga um, þegar farið verður að bjóða út viðbætur, að þar sé ekki verið að hafa fjármuni af ríkinu til uppbyggingar á kerfum sem gætu alveg staðið undir sér í samkeppninni.

Ég ætla svo að gera litla athugasemd við orðalag hér. Í 3. gr. stendur að samgönguráðherra skipi fimm menn í stjórn fjarskiptasjóðs, þar af formann og varaformann auk varamanna. Það er nú venjan að það komi fram hvað varamennirnir eiga að vera margir. Ég gef mér að þarna eigi þeir að vera jafnmargir og stjórnarmennirnir en það er þó ekkert alveg ótvírætt í því. Mér finnst að það þurfi að vera skýrt.

Svo langar mig að vekja athygli á einu sem kemur hér fram. Það er sagt hér í 1. gr., markmiðsgreininni:

„Sjóðurinn er eign ríkisins. Varsla hans og dagleg umsýsla heyrir undir samgönguráðuneytið.“

En þar á undan stendur:

„Stofna skal sérstakan sjóð, fjarskiptasjóð, sem hefur það hlutverk að stuðla að uppbyggingu á sviði fjarskiptamála á grundvelli fjarskiptaáætlunar.“

Í athugasemdum við frumvarpið, og ég vek athygli á því, í lok athugasemdanna, á undan athugasemdum við einstakar greinar, stendur:

„Meginreglan verður að framlög taki mið af fjarskiptaáætlun“ — allt svo meginreglan — „og verði í samræmi við nánari útfærslu verkefna hverju sinni. Mikilvægt er að stjórn sjóðsins setji sér skýrar reglur um greiðslur úr sjóðnum, m.a. í samræmi við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.“

Bíddu, hvað er hér á ferðinni? Ég bara spyr, mér finnst þetta svolítið undarlegt. Það er talað um fjarskiptaáætlun. Hún á að koma fyrir Alþingi og hún á að liggja fyrir sem plagg sem á vera meginstefnan í því sem verið er að gera hér, en svo er allt í einu ríkisstjórnin komin inn og nefndin á að liggja yfir einhverri forgangsröðun frá henni. Ég held að það sé full ástæða til þess að heyra í hæstv. samgönguráðherra með það hvað er átt við með þessu. Á ríkisstjórnin að vera með einhverja aðra forgangsröðun en kemur fram í fjarskiptaáætlun? Hvernig stendur á því að hér er sérstaklega vikið að því að einhver forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í þessum málum eigi að vera á dagskrá þeirrar stjórnar sem fjalla á um málin? Ef til vill er það eitthvað sem ég átta mig ekki á og fæ þá skýringar á. En mér fannst ástæða til þess að spyrja um þetta vegna þess að ég vildi taka mark á því að sú fjarskiptaáætlun sem yrði kynnt væri í alvöru. Að ekki væri einhver önnur fjarskiptaáætlun ríkisstjórnarinnar sem ætti síðan að taka sérstakt mið af eins og manni gæti dottið í hug.

Ég ætla ekki að hafa mitt mál langt í þessu. Ég endurtek að ég tel að full ástæða sé til þess að nefndin skoði þetta vandlega og reyni að velta því fyrir sér með hvaða hætti sé hægt að láta meta eftirlit með þessum útboðum, alveg sérstaklega vegna þess einokunarfyrirbrigðis sem er þarna í gangi. Síminn á nánast öll grunnkerfin í landinu, í dreifbýlinu, og það hlýtur að verða freisting fyrir þá sem stjórna á þeim bæ að bíða með framkvæmdir á svæðum sem kannski er tæpt með að standi undir sér, þar sem þeir hafa von um að fá peninga úr ríkissjóði til þess að fjármagna þær framkvæmdir. Þess vegna þarf að vanda sig alveg sérstaklega við það að veita fjármunum í þennan farveg og passa upp á að menn verðleggi hlutina ekki of hátt.

Ég held reyndar að þar verði menn jafnvel að velta fyrir sér einhverjum öðrum leiðum til viðbótar og mér finnst að nefndin ætti að skoða það vandlega hvort útboð er eina leiðin, t.d. að hægt væri að hafna niðurstöðum útboða á grundvelli skoðunar og láta framkvæma verkefnið á vegum nefndarinnar, ef um það er að ræða, eða bjóða það út aftur eða hvernig sem menn vilja hafa það.

Þetta er ekkert einfalt mál þegar svo mikil fákeppni er á ferðinni eins og þarna er.