132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:35]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason reynir enn sem fyrr að gera það tortryggilegt að Framsóknarflokkurinn hafi staðið að einkavæðingu Landssímans. Gert var ráð fyrir því í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að Landssíminn yrði seldur og það er stefna Framsóknarflokksins eins og fleiri flokka að rekstri sem er betur kominn í höndum einkaaðila eigi einkaaðilar að sinna en ekki ríkið að ógleymdum EES-reglunum sem gera ráð fyrir að þetta sé samkeppnisrekstur. Samkeppnisrekstur teljum við betur kominn hjá einkaaðilum en hjá ríkinu.

Hvað varðar skoðanakönnun sem gerð var á því hvort selja ætti Landssímann þá minnir mig, frú forseti, að hún hafi gengið út á hvort ætti að selja grunnnetið með. Það var í rauninni síðasta vígi Vinstri grænna að gera það tortryggilegt að grunnnetið yrði selt með heldur ætti að halda því eftir við söluna en hins vegar held ég að það segi sig alveg sjálft þegar andvirðið er skoðað og það sem fékkst fyrir Landssímann þegar hann var seldur að það hefði ekki orðið sú fjárhæð sem raun ber vitni hefðum við haldið grunnnetinu eftir. Enda eins og hv. þingmaður líklegast veit eða ætti að vita gat svo sem enginn gert grein fyrir því hvað væri grunnnet og hvað væri ekki grunnnet og hvað það væri þá sem ætti að halda eftir.

En ég segi fyrir mitt leyti, frú forseti, að þetta er liðin tíð. Landssíminn hefur verið seldur. Mikil sátt er um það í samfélaginu og sátt um það hvernig andvirði sölunnar verður varið. Hluta af því andvirði verður varið til að byggja upp þennan fjarskiptasjóð til að tryggja jafnræði við landsbyggðina og ég held að flestir sjái það í dag að allri þeirri tortryggni sem Vinstri grænir reyndu eðlilega að sá varðandi söluna á sínum tíma verður eytt þegar fólk verður upplýst um hvernig ríkisstjórnarflokkarnir ætla að standa að því að tryggja hagsmuni landsbyggðarinnar.