132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:37]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur legið fyrir hvað grunnnetið er í sjálfu sér, hvert megingrunnfjarskiptakerfið var. Hv. þingmaður er því að fara á aðra leið en raun ber vitni.

Ég hef, frú forseti, áhyggjur af því hversu Framsóknarflokkurinn er genginn langt í einkavæðingartrúboði sínu, ég hef bara áhyggjur af því, ég segi það eins og er. Ég held að íbúar úti um hinar dreifðu byggðir hafi einnig áhyggjur, á Vestfjörðum, í Húnavatnssýslum, Norðausturlandi, Austurlandi og víðar þar sem er vitað að engin virk samkeppni verður á fjarskiptamarkaði. En sú grunnþjónusta sem fjarskiptin eru er forsenda fyrir samkeppnishæfri búsetu á þessum svæðum og þeir íbúar vita ósköp vel að einkavæðing og almannaþjónusta leiðir til dýrari og lélegri þjónustu í dreifbýli, enda er reynslan sú annars staðar, hjá öðrum þjóðum. En Framsóknarflokkurinn vill kaupa það hvað sem það kostar.

Ég held t.d. að íbúar á Blönduósi séu ekki ánægðir þar sem fyrstu starfsstöð Landssímans var lokað tveim dögum eftir að gengið var frá greiðslu eða kaupum endanlega. Starfsstöð Landssímans á Siglufirði var lokað. Ég held að þeir viti ósköp vel hvað gerist. Þeir hafa fundið það strax á eigin skinni hvað gerist við einkavæðingu og sölu á almannaþjónustu. Það er dapurt ef forusta Framsóknarflokksins áttar sig ekki á því að hún er komin þarna fullkomlega á skjön við fyrrverandi kjósendur sína í einkavæðingartrúboði sínu á almannaþjónustu út um land, því miður, frú forseti.