132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:58]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir þau lokaorð hæstv. ráðherra að fjarskiptafyrirtækin muni náttúrlega leggja sig fram um að skapa þjónustu þar sem arðs er von. En þar sem arðs er ekki von munu þau náttúrlega ekki leggja sig fram.

Staðreyndin er sú að hér ríkir hreint fákeppnisumhverfi í fjarskiptum og á stórum hluta landsins ríkir hrein einokun í fjarskiptum, einkavædd einokun. Það er ekkert um að ræða neina frjálsa samkeppni sem drifkraft í stórum hluta landsins. Og hvaða samkeppni er það að vera kannski með eitt eða tvö meginfyrirtæki á hinum hluta landsins? Það er fákeppni, frú forseti. Ég verð að segja að sá heimur sem hæstv. ráðherra hrærist í varðandi það að samkeppniskrafturinn drífi áfram þjónustuna getur verið raunverulegur í meginþéttbýlinu. En út um land er hann ekki fyrir hendi og ekki er fyrirsjáanlegt að hann verði fyrir hendi á næstunni. Við munum þar standa frammi fyrir fákeppni og jafnvel einkavæddri einokun í fjarskiptum á stórum hluta landsins. Það verður vandi að sjá hvernig hægt er að tryggja jöfnuð um land allt hvað þetta varðar.