132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

[10:38]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Umræða um erlent vinnuafl hefur eðlilega verið áberandi undanfarið, bæði hér á landi og annars staðar í Evrópu og ekki síst á Norðurlöndunum sem við berum okkur einkum saman við. Sú umræða hefur stundum verið óljós og varðað mismunandi hluti. Hún hefur í senn varðað innlendar og erlendar starfsmannaleigur og þá grundvallarþætti EES-samningsins sem varða frjálsa för launafólks og þjónustuviðskipti. Það sem við öll skiljum og snertir okkur eru þó upplýsingar sem varða kaup og kjör erlends verkafólks sem starfar tímabundið hér á landi en fyrir liggur að undanfarin ár og áratugi hefur erlent verkafólk, og þá ekki síst frá Póllandi, verið mikilvægur hlekkur í atvinnulífi okkar.

Starfsmannaleigur er hafa staðfestu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins hafa heimildir til að gera samning við innlend fyrirtæki um veitingu þjónustu á grundvelli samningsins um EES. Það eru hins vegar lög í landinu sem kveða á um að þessar starfsmannaleigur skuli virða þær reglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Þar á meðal eru ákvæði um gildi kjarasamninga um lágmarkskjör og vinnuvernd. Um þessi atriði þurfa menn ekki að deila, hvorki hér né úti í samfélaginu.

Mikill uppgangur á innlendum vinnumarkaði leiðir til þess að vinnuveitendur leita út fyrir landsteinana eftir vinnuafli. Hafa fyrirtæki því m.a. leitað til erlendra starfsmannaleigna. Meginástæða þess var sögð sú að hægt hafi gengið að afgreiða atvinnu- og dvalarleyfi hjá stjórnvöldum. Ég tel að sú skýring heyri sögunni til hafi hún einhvern tíma átt rétt á sér. Stjórnvöld fóru yfir málin og brugðust við þessari gagnrýni með því að breyta verklagi sínu í byrjun septembermánaðar með það að markmiði að útgáfa atvinnu- og dvalarleyfa til handa starfsmönnum frá hinum nýju aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins væru gerð skilvirkari. Aðilar vinnumarkaðarins eru sammála um að það hafi tekist. Það tekur nú tvær vikur að afgreiða leyfin þannig að ég get ekki séð að það sé afsökun lengur að ráða fólk í gegnum starfsmannaleigur hafi tregða í útgáfu leyfanna yfirleitt verið meginskýringin á því að sú leið varð fyrir valinu.

Ég höfða, hæstv. forseti, í þessu sambandi til ábyrgðar fyrirtækjanna í landinu um að meginreglan á íslenskum vinnumarkaði er ótímabundnar ráðningar starfsfólks. Hér gildir ákveðinn sveigjanleiki á vinnumarkaði í ráðningum sem ég tel að við séum sammála um að varðveita og það á ekki síst við fyrirtækin í landinu. Menn eiga því ekki að þurfa á öðrum ráðningarformum að halda nema í undantekningartilvikum.

Enn fremur virðist það hafa týnst nokkuð í umræðunni um þessi mál að það eru margvíslegar aðrar skyldur sem hin erlendu fyrirtæki bera samkvæmt íslenskum lögum. Þeim ber t.d. að tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skattyfirvalda átta dögum áður en starfsemi þeirra hefst hér á landi og þeim ber að greiða virðisaukaskatt af veittri þjónustu. Þá ber þessum fyrirtækjum jafnframt að tilkynna til Útlendingastofnunar að þau hafi í hyggju að starfa á innlendum vinnumarkaði á grundvelli þjónustu og viðskipta. Að mínu mati á að byrja á því að fara yfir hvort regluverk sem þegar er fyrir hendi í lögum sem Alþingi hefur samþykkt virki sem skyldi áður en menn samþykkja breytingar eða nýmæli. Ég hef þó sagt, hæstv. forseti, og ítreka það í þessum sal að ég er reiðubúinn að leggja fram frumvarp um sérstaka löggjöf um starfsmannaleigur eða breytingu á gildandi löggjöf þar sem fram koma sérákvæði sem taka sérstaklega á starfsmannaleigum sem hafa staðfestu hér á landi.

Nefnd sem ég skipaði og hv. þingmaður fjallaði um hefur fjallað um starfsmannaleigur og mun ljúka störfum á næstu dögum. Þar liggja ákveðnar hugmyndir á borðinu sem menn eru að fara yfir hjá aðilum vinnumarkaðarins. Ég held að ég geti fullyrt að þar eru menn sammála um að finna þurfi ráð til að koma skipulagi á ýmsa þætti og fyrirbyggja þann misskilning að Ísland sé eitthvert fríríki þar sem engin lög eða reglur gilda. Það er óásættanlegt að mínu mati og ég tel að við séum öll sammála um það.

Það gilda tilteknar leikreglur á íslenskum vinnumarkaði sem leikmenn þurfa að virða. Það er mikilvægt að samtök aðila vinnumarkaðarins haldi þeim mikilvægu grundvallarhlutverkum sínum að halda uppi skipulagi á vinnumarkaði og þar með því vinnumarkaðskerfi sem við höfum þróað í sameiningu í tugi ára, kerfi sem við ætlum að varðveita.

Verkalýðshreyfingin á heiður skilinn fyrir þátt sinn í þessu máli og ég hef fengið upplýsingar um það undanfarið að þar innan borðs eru menn nú að ná til þeirra útlendinga sem telja vera brotið á rétti sínum. Á sama tíma, hæstv. forseti, finnst mér hins vegar sorglegt að íslensk fyrirtæki taki þátt í þeirri vitleysu sem mér virðist hafa viðgengist. Það er skammarlegt ef hvarflað hefur að íslenskum fyrirtækjum að brjóta gildandi kjarasamninga þegar lög eru í landinu sem segja að hér gildi kjarasamningar í hlutaðeigandi starfsgrein sem lágmarkskjör. Efni þessara laga ætti ekki að koma mönnum á óvart. Þau hafa lengi verið í gildi. Ég á þá ekki síður við þau fyrirtæki sem hafa óbeint tekið þátt í því með viðskiptum við starfsmannaleigur án þess að ganga úr skugga um eða tryggja með einhverjum hætti að útlendingar er starfa á vinnustöðum þeirra og undir þeirra stjórn njóti kjarasamningsbundinna réttinda. Það kann vel að menn telji sig vera í fullum rétti þegar talað er um innrás erlendra starfsmannaleigna, svikahrappa sem eyðileggja vinnumarkað okkar. En lítum okkur nær. Taka íslensku fyrirtækin ekki fullan þátt í því með því að eiga viðskipti við þessi fyrirtæki? Vonir mínar standa til að þessum hildarleik ljúki senn og menn sjái sóma sinn í að virða leikreglurnar. Þar eiga menn ekki að firra sig ábyrgð og segja að þessi mál komi sér ekki við. Hér hljótum við öll að bera samfélagslega ábyrgð.

Hæstv. forseti. Ég stefni að því að leggja fram frumvarp á Alþingi fyrir jólahlé varðandi starfsmannaleigur. Ég get eðli málsins samkvæmt ekki upplýst þingmenn að svo stöddu um efni þess enda eru ákveðin atriði nú í skoðun hjá þeim er að málinu hafa komið. Ég á von á að um málið takist sátt á þinginu. Vilji minn er skýr. Ég vil gera allt sem í mínu valdi stendur til að ljúka þessum málum faglega til frambúðar.