132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

[10:56]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka upp þetta mál. Það er eðli málsins samkvæmt alvarlegt þegar mannréttindi eða lög um lágmarksréttindi eru brotin. Ég tel þó nokkuð langt seilst ef menn leggja mál þannig upp að ef menn hvetja til ofbeldis eða beita ofbeldi að það sé eitthvað sem sé ekki bannað í íslensku þjóðfélagi núna. Það er stóralvarlegt mál. Því fer fjarri og fráleitt að reyna að leggja mál þannig upp að slíkt sé með einhverjum hætti löglegt.

Öllum hlýtur að vera ljóst að lög um lágmarkskjör gilda óháð því hvort viðkomandi starfsmaður er ráðinn af starfsmannaleigu eða á annan hátt. Og menn eiga ekki að tala með öðrum hætti hér í sölum Alþingis, menn eiga ekki að gera það.

Það liggur fyrir og hvarflar ekki annað að mér en að málshefjandi, sem þekkir vel til EES-samningsins, viti að hér á landi eru í gildi Evrópureglur sem voru innleiddar um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja. Þar er skýrt kveðið á um að um starfskjör þessa fólks gildi íslensk lög að því er varðar lágmarkslaun, yfirvinnugreiðslur, réttindi til orlofs, hámarksvinnutíma og lágmarkshvíldartíma, vinnuvernd o.fl. Þetta liggur alveg fyrir.

Menn þekkja það líka að hér eru skýrari reglur um lágmarkslaun og þær eru fortakslausari en í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það er afskaplega mikilvægt að þessu sé haldið til haga. Ég tek undir með hæstv. ráðherra og það hlýtur að eiga við hér og alltaf að ábyrgð, hvort sem það er fyrirtækja (Forseti hringir.) eða einstaklinga sem stýra þessum fyrirtækjum, er mikil.