132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[11:03]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um upplýsingarétt um umhverfismál. Frumvarp þetta er samið í þeim tilgangi að uppfylla skyldur íslenska ríkisins vegna EES-samningsins. Markmið þess er að innleiða tilskipun 2003/4/EB frá 28. janúar 2003, um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/313/EB, um frjálsan aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Frumvarpið var unnið í samráði við forsætisráðuneytið vegna tengsla þess við upplýsingalög, nr. 50/1996. Verði frumvarpið að lögum falla úr gildi lög nr. 21/1993, um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, sem voru sett á grundvelli eldri tilskipunar um sama efni.

Í alþjóðlegum umhverfisrétti hefur aukin áhersla verið lögð á að almenningur hljóti fræðslu um umhverfismál og hafi aðgang að upplýsingum um þau og má sjá þess merki í ýmsum alþjóðayfirlýsingum og samningum á sviði umhverfismála. Tilskipun þeirri sem frumvarpið byggir á er ætlað að innleiða fyrstu stoð Árósasamningsins í löggjöf Evrópubandalagsins en sá hluti samningsins lýtur að almennum aðgangi að upplýsingum um umhverfismál en tilskipunin gengur þó lengra um nokkur atriði.

Markmið frumvarpsins er að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða geymdar eru fyrir þeirra hönd til að stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings í töku ákvarðana um umhverfismál.

Í 2. gr. frumvarpsins eru þau stjórnvöld sem falla undir frumvarpið skilgreind en þar er um að ræða sömu stjórnvöld og falla undir gildissvið upplýsingalaga. Ákvæðið tekur þó ekki bara til stjórnvalda í hefðbundnum skilningi heldur einnig til fyrirtækja sem rækja opinbert hlutverk að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hlutafélög og sameignarfélög í eigu ríkis eða sveitarfélaga, svo dæmi séu tekin, geta fallið undir frumvarpið og ber því að veita upplýsingar um umhverfismál. Til einföldunar á framsetningu greinarinnar eru allir þeir sem falla undir gildissvið frumvarpsins nefndir stjórnvöld. Undir frumvarpið falla einvörðungu þeir lögaðilar sem falið hefur verið opinbert hlutverk eða sem veita almenningi opinbera þjónustu sem varðar umhverfið. Opinbera þjónustan eða verkefnið þarf þannig að hafa áhrif á umhverfið, t.d. sorphirða á vegum sveitarfélaga sem verktaki rækir á grundvelli samnings.

Skilgreint er í 3. gr. frumvarpsins hvaða upplýsingar teljast til upplýsinga um umhverfismál en sem dæmi um það má nefna upplýsingar um ástand afmarkaðra þátta eins og andrúmslofts, lofthjúps og vatns, um fyrirbæri á borð við hávaða, um úrgang og um ástand sem varðar heilbrigði manna, svo sem mengun matvæla.

Í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um skyldu stjórnvalda til að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum um umhverfismál en takmarkanir eru á þeim upplýsingarétti samanber 6. gr. frumvarpsins. Rétturinn til aðgangs að upplýsingum tekur ekki aðeins til upplýsinga sem eru í vörslu stjórnvalda heldur einnig til upplýsinga sem eru geymdar fyrir þeirra hönd af öðrum aðilum eins og áður sagði. Synji stjórnvald um aðgang að upplýsingum að hluta eða í heild ber því að rökstyðja þá ákvörðun sína og tilkynna það skriflega samanber 14. gr. frumvarpsins.

Lagt er til að ákvörðun stjórnvalds um synjun um aðgang að upplýsingum sé kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál en ekki þykir rétt að setja á fót nýja úrskurðarnefnd heldur fela úrskurðarnefnd um upplýsingamál að úrskurða í slíkum málum enda þótt hún heyri ekki stjórnarfarslega undir málefnasvið umhverfisráðherra. Gert er ráð fyrir að almenningur eigi ávallt rétt á því að fá aðgang að upplýsingum um mengandi losun út í umhverfið. Helstu takmarkanir á aðgangi almennings hvað þennan þátt varðar eru því felldar niður samanber 8. gr. frumvarpsins. Þannig er ekki heimilt að takmarka aðgang að upplýsingum um mengandi losun út í umhverfið enda þótt slíkar upplýsingar geti skaðað ímynd eða samkeppnisstöðu þess fyrirtækis sem í hlut á. Hér eru hagsmunir almennings látnir vega þyngra en hagsmunir fyrirtækja þannig að almenningi er veittur réttur til að fá aðgang að slíkum upplýsingum.

Meginreglan er sú að stjórnvöld skulu gera upplýsingar um umhverfismál aðgengilegar í því formi eða með því sniði sem þær eru varðveittar nema þær séu þegar aðgengilegar almenningi samanber 13. gr. frumvarpsins. Þegar upplýsingar eru varðveittar á rafrænu formi getur aðili valið á milli þess að fá þær á því formi eða útprentaðar á pappír. Stjórnvöldum er hins vegar ekki skylt að búa til gögn eða taka saman upplýsingar heldur aðeins að veita aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum.

Frú forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins um upplýsingarétt um umhverfismál og legg til að frumvarpinu verði vísað til umhverfisnefndar að lokinni 1. umr.