132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[11:09]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Áður en haldið er inn í umræðu um þetta frumvarp sem hæstv. umhverfisráðherra hefur talað fyrir þætti mér fengur að því að fá svar við einni spurningu sem vaknar við að hlusta á mál hennar. Þar kemur fram að hér sé verið að færa í lög eina stoð Árósasamningsins svokallaða, eina af þremur stoðum þess samnings. Árósasamningurinn var staðfestur og undirritaður fyrir Íslands hönd ef ég man rétt árið 1998 eða 1999 og stoðir hans eru þrjár. Það er í fyrsta lagi aðgangur að upplýsingum um umhverfismál, í öðru lagi þátttaka í ákvörðunum er lúta að umhverfismálum og í þriðja lagi trygging fyrir réttlátri málsmeðferð. Nú langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Þó að ekki sé komin tilskipun um síðari tvær stoðirnar sem ég taldi upp hvað hefur þá verið rætt í herbúðum hæstv. umhverfisráðherra varðandi innleiðingu þeirra tveggja stoða sem út af standa? Eigum við von á því að þær verði lögleiddar á sama hátt og sú sem hér er til umfjöllunar eða ætla stjórnvöld að láta það bíða þangað til tilskipun kemur frá Evrópusambandinu um það mál? Mér finnst það í hæsta máta vera sleifarlag og slóðaskapur. Ég hef ítrekað reynt að fá íslensk stjórnvöld til að opna augu sín fyrir því hversu mikilvægt er að lögleiða allan Árósasamninginn. Ég hefði talið að hér væri tækifæri til þess og mig langar til að heyra hæstv. umhverfisráðherra rökstyðja hvers vegna stoðirnar tvær sem út af standa eru ekki með í frumvarpinu.