132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[11:42]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Hér fara fram áhugaverðar umræður um frumvarpið um rétt almennings til upplýsinga um umhverfismál. Tveir háttvirtir þingmenn veltu sérstaklega fyrir sér hvort orðalaginu í 1. gr. frumvarpsins þar sem segir:

„Markmið laga þessara er að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál, sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða geymdar eru fyrir þeirra hönd, til að stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings í töku ákvarðana um umhverfismál.“

Þetta orðalag er fyrst og fremst byggt á a-lið 1. gr. tilskipunarinnar og 1. töluliðar formálsorða hennar. Þannig er orðalagið til komið. Ég tel einsýnt að það að almenningur hafi rétt til upplýsinga um umhverfismál hljóti að leiða af sér að sterkari vitund verði um málefni á umhverfissviði, frjáls skoðanaskipti og aukna þátttöku almennings við töku ákvarðana. Það að geta nálgast upplýsingar styrkir stöðu almennings í að taka þátt í umræðum og ákvörðunum varðandi þessi mál.

En margt fleira var nefnt. Árósasamningurinn var gerður að sérstöku umræðuefni, þ.e. að Ísland skuli ekki hafa fullgilt hann. Það gætti ákveðins misskilnings í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar. Þannig er að annars vegar var að störfum óformlegur vinnuhópur og þrjú ráðuneyti sem áttu fulltrúa í honum, þ.e. umhverfisráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Sú vinna leiddi í ljós að vinna þyrfti málið nánar með fleiri ráðuneytum. Þess vegna skipaði ég nefnd í febrúar og í henni eiga sæti fulltrúar frá umhverfisráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Sú nefnd er að störfum, svo að það sé alveg ljóst.

Síðan gerði hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir að sérstöku umtalsefni að stjórnvöld væru að tala tungum tveim, eins og hún orðaði það. Hún hélt því fram að samstarf umhverfisráðuneytis og frjálsra félagasamtaka væri sáralítið eða nánast ekki neitt. Ég verð að segja að ég kannast ekki við þá mynd sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir dregur upp. Það hefur verið alveg einstaklega gott samstarf á milli umhverfisráðuneytisins og frjálsra félagasamtaka. Í gildi er samkomulag um samstarf þar sem veittur er fjárstuðningur til frjálsra félagasamtaka. Á þessu ári hækkaði ég þann fjárstuðning úr 8 milljónum í 10. Í rauninni er það mjög eðlileg málsmeðferð að sótt sé um til ráðuneytisins til ákveðinna verkefna. Það er ekkert óeðlilegt við það. Mér finnst mjög furðulegt að gera það eitthvað tortryggilegt og það er engin ritskoðun í því fólgin. Félagasamtökin ráða því auðvitað sjálf og ákveða til hvaða verkefna þau sækja til umhverfisráðuneytisins.

Mér finnst að þetta sýni hreint og klárt vanþekkingu Kolbrúnar Halldórsdóttur á samstarfi umhverfisráðuneytisins og hinna frjálsu félagasamtaka. Við eigum mjög tíða fundi um hin ýmsu mál og ég hef fengið mjög fínar ábendingar og átt mjög mikið samstarf um einstök mál. Ég nefni eitt mjög mikilvægt mál sem dæmi. Það er akstur utan vega þar sem frjálsu félagasamtökin ásamt ráðuneytinu hafa virkilega lagt mikið á sig og lagst mjög á sveifina með okkur til að reyna að koma þeim málum í gott horf. Það skortir sannarlega ekki á vilja af hálfu ráðuneytisins til að eiga gott samstarf. Eins og ég nefndi eigum við mjög tíða fundi um hin ýmsu mál og tökumst á við þau saman.

Einnig var nefnt hér það sem hv. þm. Mörður Árnason kallaði NGO-isma og hélt því fram að ýmsar skoðanir væru á því að berjast ætti gegn NGO-isma. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvað þessi NGO-ismi er.

Hins vegar er algerlega klárt í mínum huga að það er mjög mikilvægt fyrir umhverfismál í landinu að gott samstarf sé við frjáls félagasamtök og það er það sem við höfum verið að leggja áherslu á í umhverfisráðuneytinu. Ég ætla ekki að hafa svar mitt við þessari spurningu öðruvísi því greinilegt er að Mörður hefur farið miklu nákvæmar ofan í þetta en sú sem hér stendur. Ég veit hreinlega ekki hvað hann á við með NGO-isma.

(Forseti (SP): Forseti vill minna hæstv. ráðherra á að ávarpa hv. þingmann með tilhlýðilegum hætti.)