132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[11:50]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég gagnrýni hæstv. umhverfisráðherra í sambandi við samstarfið við frjáls félagasamtök. Ég get auðvitað viðurkennt að það samstarf sem er til staðar er gott. Hins vegar held ég mig við það að það mætti vera svo miklu meira, svo miklu opnara, og það mætti vera í málum sem eru líka deilumál. Sannleikurinn er sá að umhverfisráðuneytið hefur viljað vinna með frjálsum félagasamtökum í óumdeildum málum eins og hæstv. ráðherra nefndi, akstur utan vega, sem er algerlega óumdeilt mál og skaðlaust fyrir stjórnvöld að vinna með frjálsu félagasamtökunum í slíku máli. En hvernig gekk þegar verið var að berjast hér blóðugri baráttu um Kárahnjúkavirkjun? Þá voru eldglæringar á milli frjálsu félagasamtakanna, a.m.k. sumra þeirra, og umhverfisráðuneytisins. Það verður hæstv. umhverfisráðherra að viðurkenna. Þau sár sem þar urðu til eru ekki gróin, þau eru enn til staðar. Þau gera það að verkum að frjálsu félagasamtökin geta ekki sótt til umhverfisráðuneytisins eða treyst á umhverfisráðuneytið í pólitískum deilumálum. Það er bara þannig. Stundum finnst mér að hæstv. umhverfisráðherra eigi að vera andófsmaður í ríkisstjórninni og ég hvet hæstv. ráðherra til að vera það, sem er svo sem ekki löngu byrjuð í þessu starfi. Ég sagði í ræðu minni áðan að frjálsu félagasamtökin og hver sá sem stýrir umhverfismálunum í ríkisstjórninni á hverjum tíma, eigi að vera bandamenn og það sé gríðarlega mikils virði að unnið sé í þeim anda. Það er barnaskapur af hæstv. ráðherra að halda því fram að það sé eðlileg málsmeðferð að ríkisstjórnin stýri þeim verkefnum sem frjálsu félagasamtökin fara í. Að sjálfsögðu eiga frjálsu félagasamtökin að ráða sjálf verkefnum sínum og þess vegna eiga opinberir fjármunir sem renna til þeirra að vera óskilgreindir. Þeir eiga að fara í almennan rekstur, þann rekstur sem félagasamtökin sjálf skilgreina (Forseti hringir.) sem brýn verkefni.