132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[11:57]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér þykja það góð tíðindi að NGO-ismi hæstv. ráðherra Björns Bjarnasonar og Vaclavs Klaus, forseta í Tékklandi, skuli ekki hafa enn þá borist upp í Mosfellsbæ og ég vona að hann komist ekki yfir sauðfjárveikivarnir í landinu heldur verði hrakinn burt „völskunum meður“ eins og fyrrverandi nágranni hæstv. umhverfisráðherra sagði á 19. öld.

Hitt þarf hæstv. umhverfisráðherra að segja okkur skýrt vegna þess að hún hefur ekki enn þá talað um Árósasamninginn eins og hún á að gera. Það er best að leggja fyrir hæstv. ráðherra þá spurningu hvort hæstv. umhverfisráðherra telur æskilegt að fullgilda Árósasamninginn þegar búið er að skýra þær meintu lagaflækjur sem um er rætt í máli hennar og annarra. Það er hin mikilvæga spurning, og þá skulum við láta eiga sig hversu lengi hefur verið að verið, eins og ég rakti í ræðu minni áðan. Telur hæstv. umhverfisráðherra þetta æskilegt þegar sá tími kemur að búið er að greiða úr flækjum eða telur hún það ekki?