132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Aðbúnaður hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

236. mál
[12:06]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vonum seinna að hæstv. félagsmálaráðherra mælir fyrir þessu máli um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Samkvæmt tilskipuninni sem hér er unnið eftir átti að vera búið að innleiða ákvæðin í ágúst 2004, varðandi hámarksvinnutíma lækna og unglækna. Er eðlilegt að spurt sé hvers vegna þessi dráttur hefur orðið.

Ég furða mig jafnframt á því, af því að hér er nokkuð stórt mál á ferðinni, að hæstv. ráðherra skyldi ekki eyða fleiri orðum í frumvarpið og hvaða áhrif það hefði. Ég gat t.d. ekki heyrt að hæstv. ráðherra hefði mörg orð um hve mikið fjölga þyrfti unglæknum. Það kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu að þeim muni fjölga þegar þessi ákvæði hafa að fullu verið innleidd. En ríkisstjórnin eða ráðherra hefur kosið að gera þetta í áföngum fram til 2009.

Lengi hafa staðið yfir deilur sem gengið hafa út á að allar reglur um hvíldar- og frítökudaga unglækna á sjúkrahúsum séu brotnar. Ég bar upp fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um þetta mál á árinu 2002 og get ekki séð að neitt hafi breyst varðandi vinnu- og hvíldartíma unglækna þrátt fyrir lögin sem sett voru árið 2003, sem áttu m.a. að taka á vinnutíma og hvíldartíma unglækna og afnema þá undanþágu sem verið hefur að því er varðar hvíldartíma þeirra. Ég held að ekki sé ofsagt, virðulegi forseti, að allar tilraunir til að leysa þetta mál hafa orðið að tómu klúðri. Svo var komið að unglæknar leituðu með málið til dómstóla og verður það mál gegn Landspítala – háskólasjúkrahúsi dómtekið 8. nóvember.

Ég hygg að meira en þrjú ár séu síðan heilbrigðisráðherra skipaði nefnd sem skilgreina átti hverjir væru læknar í sérnámi, sem deilur hafa einnig staðið um. Það leiddi til að allir læknar sem ekki höfðu lokið sérfræðinámi voru flokkaðir sem læknar í starfsnámi. Vinnutímatilskipunin náði því ekki til þeirra og hafa þeir ekki notið sama hvíldartíma og réttinda og aðrir læknar. Það er raunar ekki forsvaranlegt, virðulegi forseti, að ekkert hafi breyst varðandi hvíldartíma lækna. Það er ekki forsvaranlegt upp á öryggi sjúklinga og rétt lækna til hvíldar að svo lengi hafi tíðkast að ungir læknar standi sólarhringsvaktir á sjúkrahúsum án hvíldar. Dæmi eru um að menn hafi staðið allt að þrjá sólarhringa samfellt á bundinni vakt á sjúkrahúsum sem hafa lækna í starfsnámi.

Ég man eftir bréfi sem yfirlæknir Vinnueftirlitsins og landlæknir sendu sameiginlega til heilbrigðisráðherra fyrir 3–4 árum. Þar segir að líkur á mistökum aukist og þekkt séu ýmis dæmi um mistök lækna sem rekja megi að öllu eða hluta til til óhóflegs vinnutíma unglækna.

Það er full ástæða til, frú forseti, að fagna frumvarpinu sem við ræðum nú, um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Með því á að innleiða ákveðna þætti varðandi skipulag og vinnutíma lækna í starfsnámi og fella algerlega úr gildi þær undanþágur sem gilt hafa. Á hinn bóginn hefur tekið ótrúlega langan tíma að koma þessu máli í þingsal. En það er náttúrlega mjög hægt farið í þetta mál því að hæstv. ráðherra ætlar að gera það í áföngum og taka fjögur ár í að innleiða þessa mikilvægu tilskipun sem miklu skiptir fyrir öryggi sjúklinga og hvíldartíma unglækna.

Ég spyr, virðulegi forseti: Var haft samráð við félag unglækna um þessa skipan mála? Eru þeir sáttir við þá skilgreiningu sem hér er sett fram, t.d. á því hverjir falli undir skilgreininguna á lækni í starfsnámi?

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, virðulegi forseti, hefur þetta mál ekki verið unnið í samráði við Félag unglækna. Svo virðist sem stjórnvöld bregðist við í þessu máli eftir að Félag unglækna lagði fram kæru á hendur Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi vegna ágreinings um hvíldartíma. Ég held ég muni það rétt að heilbrigðisráðherra hafi sent bréf til stjórnenda Ríkisspítala þar sem farið var fram á að vinnutími unglækna yrði lagfærður þannig að hann færi eftir lögum um hvíldartíma. Þrátt fyrir að heilbrigðisráðherra hafi sent þá fyrirskipun verður ekki séð að það hafi breytt neinu varðandi hvíldartíma læknanna og að leiðrétt hafi verið þau brot sem eru á hvíldartíma sem ná raunverulega 2–3 ár aftur í tímann.

Í samtölum mínum við forsvarsmenn Félags unglækna hefur komið fram að ekki hafi farið fram nein vinna á vegum stjórnvalda til að skoða hvort þetta sé yfirleitt framkvæmanlegt sem hér er verið að leggja til, hvað þetta muni kosta og hvernig eigi að skipuleggja vinnu unglækna samkvæmt þessari tilskipun. Ljóst er að himinn og haf er á milli þess sem Félag unglækna telur að þurfi að fjölga unglæknum miðað við þessa tilskipun þegar hún er að fullu komin til framkvæmda og þess álits sem fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytisins, fjárlagaskrifstofu, um hve mikið fjölga þurfi unglæknum.

Samkvæmt því sem Félag unglækna upplýsir er fjöldi unglækna nú um 150 og þarf að fjölga þeim í 200, eða um allt að 50, þegar þessi tilskipun og hvíldartíminn er að fullu kominn til framkvæmda. Í umsögn fjárlagaskrifstofu segir um þetta:

„Að óbreyttu er ekki óraunhæft að gera ráð fyrir að stöðum unglækna við sjúkrahúsin fjölgi um tíu ár hvert næstu ár vegna innleiðingar tilskipunarinnar og verði um 160 til 170 í lok árs 2008.“

Félag unglækna segir að þeim þurfi að fjölga í 200 í lok tímabilsins og munar það hvorki meira né minna en upp undir 40–50 stöðugildum. Því þarf að fara mjög vandlega yfir þetta í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar sem væntanlega er félagsmálanefnd. Í umsögninni kemur einnig fram að árleg aukning útgjalda ríkissjóðs næmi þá um 35 millj. kr. við þá aukningu sem þeir áætla sem er tíu á ári ár hvert. En ljóst er að útgjaldaaukningin verður margfalt meiri en fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir í þessu sambandi.

Hæstv. ráðherra talaði um þessa innleiðingu, hvernig hún ætti að eiga sér stað. Í 2. gr. er talað um að hámarksvinnutími lækna í starfsnámi á viku að yfirvinnu meðtalinni skuli ekki vera umfram 58 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili og fari niður í 56 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili.

Þá ætla ég að vitna til þess, virðulegi forseti, að í greinargerð með þessu frumvarpi segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Að því er varðar lækna í starfsnámi er aðildarríkjum engu síður veittur sérstakur aðlögunartími þannig að heimilt er að innleiða meginreglu vinnutímatilskipunarinnar um 48 klukkustunda vikulegan hámarksvinnutíma í þrepum á allt að átta árum samkvæmt sérstökum skilyrðum og er veitt tiltekið svigrúm með tilliti til viðmiðunartíma vikulegs hámarksvinnutíma ...“

Er það ekki réttur skilningur, og ég spyr hæstv. ráðherra að því, að við erum að tala um að fara með þetta niður í 48 klukkustunda vikulegan hámarkstíma eins og fram kemur í greinargerðinni? En við lestur á lagagreininni sjálfri mætti misskilja þetta þannig að verið sé að tala um annan fjölda af klukkustundum.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að það er mikilvægt að fá það fram sérstaklega þegar maður lítur til umsagnar fjármálaráðuneytisins, hvaða úttekt hafi farið fram og kortlagning á þörfinni fyrir að fjölga unglæknum miðað við þær breytingar sem hér eru lagðar til. Eru þetta bara einhverjar tölur upp úr hatti sem fjármálaráðuneytið dregur fram og byggir fjárþörfina á eða hefur það verið skilgreint nákvæmlega hver þörfin sé á að fjölga unglæknum til þess að hægt sé að standa við þennan hvíldartíma upp á 48 klukkustundir eins og tilskipunin felur í sér?

Það er líka alveg ljóst — og ég spyr hvort hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því — að þegar við erum komin niður í 48 klukkustundir og litið er til þess mikla álags sem hefur verið á unglæknum þar sem þeir hafa staðið vaktirnar kannski í einn sólarhring og í sumum tilvikum lengur, eins og ég nefndi áðan, þá mun þetta skerða kjör unglækna, sem þeir sjálfir nefna, um 25%. Auðvitað er það svo að hámarkshvíldartíma verða unglæknar að fá og skilgreina þarf hámarksvinnutímann þannig að það sé allt gert út frá öryggi sjúklinganna og nauðsynlegum hvíldartíma unglækna. Engu að síður standa þeir frammi fyrir skerðingu á kjörum sínum um 25% þegar þetta verður að fullu komið til framkvæmda.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra að því hverju hann telur að lögin um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem voru samþykkt í apríl 2003 þar sem átti að afnema þessa undanþágu, hafi raunverulega breytt. Unglæknar segja mér að vinnutími þeirra sé nákvæmlega sá sami og hann hefur verið á umliðnum árum þrátt fyrir þessa lagabreytingu og í raun og sanni hafi ekkert breyst í þessu efni og þess vegna hafa þeir farið með mál sitt til dómstólanna.

Virðulegi forseti. Það er alvarlegt ef í ljós kemur að sú umsögn sem fram kemur hjá fjármálaráðuneytinu er hreinlega villandi og röng vegna þess, virðulegi forseti, að ráðherrum ber að setja réttar upplýsingar fyrir þingið og greina frá áhrifum af þeim frumvörpum sem þeir leggja fram. Þess vegna verður að leggja í það vinnu, ef það hefur ekki verið gert á vegum ráðuneytisins, að skoða hvers vegna svona mikið beri á milli umsagnar fjármálaráðuneytisins um þörfina á fjölgun á stöðugildum og því sem fram kemur hjá unglæknum sjálfum. Við erum að tala um alla vega 40 ef ekki nálægt 50 stöðugildi sem þarna ber á milli. Eins og staðan er núna liggja þessir unglæknar ekkert á lausu og því er haldið fram í mín eyru að það skorti unglækna í dag bæði á LSH og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Fróðlegt væri að vita hvaða kortlagning hafi farið fram á því á vegum stjórnvalda hvernig þeir ætla að finna 40–50 unglækna til viðbótar miðað við ákvæði þessarar tilskipunar.

Þetta vildi ég láta koma fram af því að hér er mál á ferðinni sem hefur verið deilumál innan og utan þingsala. Það er mikilvægt þegar við fáum þetta mál núna til þingsins að frá því sé gengið á viðunandi hátt þannig að þetta séu ekki bara orð á blaði, orð í lagabókstaf sem er svo ekki hægt að hrinda í framkvæmd m.a. vegna þess að skortur er á unglæknum og m.a. vegna þess að ekki er áætlað rétt um útgjaldaþörf og fjölda stöðugilda við þessa breytingu. Það er mikið í húfi, virðulegi forseti, og skal ég ljúka nú máli mínu með því að segja að ég vona að frá málinu verði þannig gengið, og ekki vonum seinna því þetta hefur tekið langan tíma, að við allt í senn tryggjum nauðsynlegan hvíldartíma unglækna, gerum ráðstafanir til að hægt sé að mæta þeim stöðugildum sem þetta frumvarp kallar á að því er varðar fjölgun á unglæknum og síðast en ekki síst að þannig sé frá hvíldartíma unglækna gengið að öryggi sjúklinga sé í öllu tryggt.

Virðulegi forseti. Ég hef beint ákveðnum spurningum til hæstv. ráðherra sem ég vona að hann veiti hér svör við.