132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Aflaheimildir frá Vestfjörðum.

[14:06]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ljóst mál að heilmiklar breytingar hafa orðið í starfsumhverfi smábátaútgerðarinnar. Í meginatriðum er smábátaútgerðin núna í heild sinni sterkari en nokkru sinni áður. Aflaheimildir smábátaútgerðarinnar hafa vaxið ár frá ári. Við tókum þá ákvörðun á sínum tíma þegar ljóst var að lagaumhverfið var að breytast að auka veiðirétt smábátanna. Það hefur tekist, m.a. í þorski, ýsu og steinbít. Það sjáum við hvarvetna þar sem við lítum í kringum okkur.

Við höfum verið að reyna að gera ýmislegt fleira í þessu sambandi. Sett hefur verið á löggjöf sem lýtur að línuívilnun og það er alveg ljóst mál að sú línuívilnun hefur gagnast hinum minni sjávarbyggðum mjög vel, m.a. á Vestfjörðum. Við þurfum ekki annað en að skoða yfirlitið af reynslunni á síðasta fiskveiðiári sem ég lét taka saman. Það sýnir þetta ákaflega vel.

Tökum dæmi. Tálknafjörður með 184 tonn, Flateyri 413 tonn, Suðureyri 303 tonn, Bolungarvík 543 og Ísafjörður 160, Hólmavík 103. Allt er þetta auðvitað til þess fallið að styrkja stöðu smábátaútgerðarinnar. Vitaskuld er það þannig að smábátaútgerðin þróast og ýmsar breytingar verða í sambandi við hana. Við vitum t.d. að handfæraveiðarnar eru mjög háðar bæði tíðarfari og aflabrögðum á grunnslóð og við vitum að þetta umhverfi hefur ekki verið sérstaklega hagfellt fyrir handfæraútgerðina á síðasta fiskveiðiári. Það hefur auðvitað haft áhrif, m.a. þau að handfæraveiðin hefur dregist saman fyrir Vestfjörðum en aukist annars staðar. Handfæraveiðin hefur svo sem minnkað í heild sinni og línuaflinn aukist af ástæðum sem öllum eru ljósar sem þekkja eitthvað til í þessari atvinnugrein. Þetta hefur auðvitað haft einhver áhrif.

Engu að síður blasir það við sem staðreynd að smábátaútgerðin núna er miklu öflugri en áður. Og það sem máli skiptir er að við höfum líka verið að gera breytingar í þá veruna að gera mönnum kleift að gera út stærri báta í smábátakerfinu þar sem aðgangurinn hefur verið auðveldari og það hefur valdið því að margar útgerðir hafa stækkað og eflst sem gefur þeim jafnframt færi á að styrkja sig í aflamarkskerfinu. Það er m.a. sú þróun sem við sjáum verða á Vestfjörðum. Menn hafa verið að reyna að búa betur um sig í aflamarkskerfinu með stærri bátum til þess m.a. að styrkja vinnslugrundvöllinn sem skiptir miklu máli fyrir atvinnusköpunina á stöðum eins og Vestfjörðum.

Það hefur verið að takast. Við sjáum þróunina, við sjáum að aflamarkshlutdeildin á Vestfjörðum hefur verið að aukast. Það er vissulega vel. Við þurfum ekki annað en að skoða t.d. tilfærslurnar í þorskinum, þá blasir það við að í þorskinum hefur hlutur Vestfirðinga í aflamarkinu aukist. Það er rétt að hann hefur nokkuð gefið eftir í krókaaflamarkinu og það skýrist af því að menn hafa breytt þessum áherslum.

Menn hafa verið að tala um að miklar tilfærslur hafi orðið til Suðurnesja og það er alveg rétt í krókaaflamarkinu. Það skýrist fyrst og fremst af þremur bátum sem hafa komið mjög öflugir inn í krókaaflamarksútgerð í Grindavík. Það hefur auðvitað heilmikil áhrif þegar þrír bátar fá um 1.700 tonna krókaaflamarkskvóta í þorskígildum. Það breytir mjög miklu í þessu kerfi.

Ég tel, virðulegi forseti, ekki ástæðu til þess að bregðast við með neinum sértækum hætti. Ég tel hins vegar ástæðu til að standa vörð um það fyrirkomulag sem við höfum þróað, fyrirkomulag sem hefur verið örvandi og uppbyggjandi fyrir smábátaútgerðina, m.a. þessa línuívilnun sem auðvitað gerir það að verkum að menn fá forskot. Menn fá möguleika á því að búa um sig. Og það er athyglisvert að þrátt fyrir þessa uppbyggingu í smábátaútgerð, til að mynda á Suðurnesjunum, sem ég var hér að rekja, er það ekki smábátaútgerð sem byggir á því að njóta línuívilnunar. Þetta er smábátaútgerð sem byggir á svokölluðum beitningarvélabátum og nýtur ekki línuívilnunar. Ég hef staðið vörð um þetta fyrirkomulag af því m.a. að ég hef talið að það skipti máli fyrir atvinnusköpunina í minni sjávarbyggðunum að hafa línuívilnunina eins og hún er. Ég tel að ef við færum að víkka hana út mundum við flýta þeirri þróun í átt til samþjöppunar og flýta þeirri þróun sem mér fannst hv. þingmaður gagnrýna hér áðan.

Þess vegna vil ég segja það, virðulegi forseti, að auðvitað verða heilmiklar breytingar í smábátaútgerðinni. Við munum sjá það að handfæraveiði getur aukist og hún getur minnkað eftir aðstæðum. Kjarni málsins er hins vegar þessi: Mjög margt hefur verið gert til þess að búa betur að smábátaútgerðinni sem hefur skipt miklu máli á stöðum eins og Vestfjörðum. Það er hins vegar eðlileg þróun að útgerðarmenn í þeim flokki sem eru núna að koma betur undir sig fótunum sjái tækifæri og möguleika á því að stækka við sig, fá betri báta. Þannig hefur það verið í íslenskri útgerð og við höfum alltaf talið jákvætt að menn gætu farið af minni bátum á hina stærri, eflt þannig útgerð sína og tryggt m.a. hráefnisöflunina fyrir fiskvinnsluna.

Ég trúi því ekki að hv. þingmaður hafi talað með þeim hætti sem hann gerði hér áðan vegna þess að hann hafi áhyggjur af þeirri þróun að menn færi sig yfir á stærri báta, auki aflamarkið og auki möguleikana þegar það blasir við t.d. (Forseti hringir.) að Vestfirðir eru núna að auka aflamark sitt í þorski á milli ára vegna þess að þeir eru að ná vopnum sínum (Forseti hringir.) í stærri útgerð en áður.