132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Aflaheimildir frá Vestfjörðum.

[14:21]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Frú forseti. Málshefjandi í þessari umræðu spyr: Telur ráðherrann að afnám Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins á sóknardagakerfinu hafi orsakað þetta? Þetta er sögufölsun. Þetta var ekki baráttumál Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þessi breyting var gerð vegna samkomulags og samninga við Landssamband smábátaeigenda. Það voru þeir sem stóðu fyrir þessu, þetta var vilji þeirra. Þannig var þetta gert.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson á allar heimildir um hvað gerst hefur í þinginu og getur flett því upp og hefur eflaust gert það. Því er óþarfi, virðulegur forseti, að hann komi hér segjandi ósannindi. Það liggur alveg fyrir hvernig menn greiddu atkvæði um þetta.

Ég er einn af þeim mönnum sem hafa trú á því og hafa haldið því fram lengi að þekkingin og vísindin eigi eftir að leiða til þess að við getum reynt að stunda veiðarnar þannig að við vitum hvað og hvernig við erum að veiða og hvenær og hvar við erum að veiða. Það var þess vegna sem ég taldi óráð að breyta þessu og greiddi því ekki atkvæði þó að hv. þm. Sigurjón Þórðarson kjósi að ljúga því viljandi að þingmönnum. Hins vegar hefur þetta engu breytt. Ég hef ekki ástæðu til að halda að þetta hafi breytt neinu. Það er ekki svoleiðis. (Gripið fram í.) Aflamarkið hefur aukist á Vestfjörðum og krókaaflamarkið minnkað. Það mun ganga þannig upp og niður og er alveg ástæðulaust að ætla að það hafi nokkur örlagaáhrif fyrir útgerð á Vestfjörðum. Það er allt annað sem við þurfum að ræða á Alþingi núna um afkomu sjávarútvegsins en þetta sem engu máli skiptir. En það er venjulega þannig að menn vilja hræra í einhverju og tala um hégóma í staðinn fyrir að ræða um að útgerðin er í stórkostlegri hættu vegna þeirrar peningastefnu sem rekin er í landinu.