132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

20. mál
[14:50]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum og áratugum kannski hafa átt sér stað samfélagslegar breytingar án nokkurrar hliðstæðu í sögunni á svo fáum árum. Í leiðinni hefur að sjálfsögðu átt sér stað veruleg tilfærsla á valdmörkunum sem við ræðum um hérna, þ.e. þrískipting ríkisvaldsins, ægivald fjölmiðla yfir samfélaginu og minnkandi vald og áhrif stjórnmálamanna í þeim skilningi sem áður mátti greina. Frjáls samkeppni, einkavæðing ríkisfyrirtækja og svo margt annað hefur valdið þessum gríðarlegu breytingum. Spurningin er ekki hvort verulegar tilfærslur á valdmörkum hafi átt sér stað heldur fremur hvernig. Þessi tillaga til þingsályktunar miðar að því að varpa skýru ljósi á þær breytingar, hvaða breytingar hafa átt sér stað, hvaða afleiðingar hafi orðið af þeim breytingum og hvernig eigi að bregðast við þeim.

Hefur lýðræðið veikst eins og fram kemur í norsku rannsókninni? Þar er dregið fram að fulltrúalýðræðið sem slíkt sé í kreppu í Noregi á meðan að niðurstaðan í Danmörku er á allt annan veg og dregur það fram að danska þingið hafi aukið vald sitt á kostnað framkvæmdarvaldsins, þvert á það sem við flest höfum á tilfinningunni að sé að gerast á Íslandi þar sem við teljum að vald löggjafans, Alþingis, hafi minnkað verulega vegna mjög yfirgangssams og sterks framkvæmdarvalds. Þessar afleiðingar þarf að draga fram, afleiðingarnar af samfélagsbreytingunum dæmalausu, þessum samfélagsbreytingum án nokkurrar hliðstæðu. Þær þarf að draga fram og skilgreina og viðbrögðin við því þurfa síðan að koma fram hjá stjórnmálamönnum.

Nú á sér stað vinna við breytingar á stjórnarskránni og þess vegna væri rannsókn á þróun valds og lýðræðis sérstaklega nytsamleg. Þá lægi fyrir ítarleg rannsókn þar sem til að mynda væri samið við háskólastofnanir eins og Lagastofnun og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um að ráðast í slíka rannsókn þar sem þetta væri allt dregið fram — við gætum þá leitað leiða til að styrkja þingið til að koma á fót t.d. rannsóknarnefndum þingsins — þ.e. hvernig við styrkjum þingið, hvernig við eflum beint lýðræði, eins og nú er töluvert í umræðunni og virðist vera að myndast þverpólitísk sátt um, að það eigi að vera ákvæði í stjórnarskrá um að tiltekinn hluti kjósenda geti kallað mál í þjóðaratkvæði, sem er meginbreyting frá því sem áður var þegar jafnaðarmenn og vinstri flokkarnir einir töluðu fyrir þeim hugmyndum fyrir örfáum árum síðan. Það er bara núna á síðustu missirum sem stjórnarflokkarnir eru farnir að tala í þá veru og þá með það fyrir augum að skipta út málskotsrétt til forseta Íslands í staðinn, þ.e. að það eigi ekki að vera tiltekinn hluti þingmanna, tiltekinn hluti atkvæðisbærra kjósenda og síðan forseti lýðveldisins sem geti skotið máli til þjóðaratkvæðis heldur einungis einn af þessum aðilum og þá, eins og umræðan hefur legið af hálfu stjórnarflokkanna, tiltekinn hluti atkvæðisbærra kjósenda. Ég held að við ættum að efla lýðræðið með því að allir þessir þrír aðilar, þing, þjóð og forseti, geti vísað málum í beina kosningu þjóðaratkvæðis. Þetta er einn þáttur málsins.

Auðvitað verður líka að leita leiða til að styrkja þingið. En til þess að hægt sé að fara vitrænt og markvisst í þessa umræðu þarf rannsókn eins og hér um ræðir að liggja fyrir á því hvernig lýðræðisfyrirkomulagið hefur breyst, hvernig Alþingi hefur breyst, hvernig vald og hver áhrif Alþingis eru nú miðað við það sem áður var eða ætti að vera að okkar mati. Það gengur t.d. algjörlega í berhögg við þrískiptingu ríkisvaldsins að forsætisráðherra kalli saman og slíti Alþingi. Það er fráleitt miðað við það hvernig stjórnarskráin stillir upp þrígreiningu ríkisvaldsins. Ýmsar slíkar breytingar þyrftu að eiga sér stað til þess að styrkja stöðu Alþingis.

Fjölmiðlarnir og þrýstihópar leggja línuna í dag á kostnað hefðbundins stjórnmálastarfs og það er hægt að fullyrða að áhrif hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka hafa minnkað verulega og að þátttaka almennings í starfi þeirra að sjálfsögðu líka á síðustu 10–20 árum. Nú eru línurnar lagðar af öflugum fjölmiðlum og máttugum. Þeir stjórna umræðunni miklu meira en stjórnmálamennirnir eins og þeir gerðu hér áður fyrr þannig að svo margt hefur breyst sem við þurfum að varpa ljósi á. Þá er mjög mikilvægt, og hlyti að koma sterklega inn í niðurstöður slíkrar rannsóknar á þróun valds og lýðræðis, að landið verði gert að einu kjördæmi, að hver maður hafi eitt atkvæði og hvorki meira né minna. Það eru brot á mannréttindum að atkvæði vegi misþungt eftir því hvar við búum á landinu. Að sjálfsögðu hljótum við að leita allt annarra leiða en þeirra að versla með lýðræðið, að versla með mannréttindin, að versla með atkvæðisréttinn, þegar við leitum leiða til að styrkja byggðirnar og efla byggð í sumum landshlutum þar sem þær eiga undir högg að sækja. Að sjálfsögðu eigum við að leita leiða til að efla búsetu þar sem byggðirnar eru á undanhaldi. En það er fráleitt að gera það í gegnum kosningarréttinn, í gegnum lýðræðið, í gegnum mannréttindi sem þau að einn maður hafi eitt atkvæði.

Þetta er nokkuð sem hlyti að koma mjög sterkt inn í rannsókn á þróun valds og lýðræðis og því hver staða lýðræðisins er í íslensku samfélagi núna, þar sem það væri skilgreint hvar hallar undan og hvar lýðræðið hefur gefið eftir og hverju verður að breyta. Að mínu mati verður að breyta þessu. Það verður að gera landið að einu kjördæmi. Það verður að breyta stjórnarskránni þannig að tiltekinn hluti þingmanna og tiltekinn hluti atkvæðisbærra manna geti kallað mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, að beint lýðræði verði ástundað hérna, en beint lýðræði er eins og allir vita nánast óþekkt í íslenskri stjórnmálasögu. Það er aldrei notað og þegar það lá fyrir, eftir að forsetinn beitti málskoti sínu 2. júní 2004, að þjóðin gengi líklega samkvæmt því til atkvæða með beinum hætti um það mál sem þá lá fyrir, fjölmiðlalögin, ætlaði allt vitlaust að verða á stjórnarheimilinu og því lauk með því að frumvarpið var kallað til baka. Lögin voru felld úr gildi. Og eins og Sigurður Líndal prófessor benti á svo ágætlega í viðtali á Útvarpi Sögu í gær þá var líklega brotið þar langmest — og að sjálfsögðu þegar maður hugsar málið — á þeim sem studdu frumvarpið, þeim sem vildu fá lög um fjölmiðla. Þeir fengu ekki að láta reyna á það til þrautar hvort slík lög mættu taka hér gildi heldur má segja að þeir sem vildu ekki slík lög hafi einir haft sigur í málinu þar sem hinir höfðu ekki tækifæri til að vinna sínum málstað fylgi.

Margt slíkt má tína til um það hvernig lýðræðið á Íslandi hefur, að mínu mati, verið að gefa eftir og hvað það er bjagað og hvað það er óburðugt og hve miklu við þurfum að breyta til að efla Alþingi til að skerpa á þrígreiningu ríkisvaldsins og til að koma á raunverulegu og nútímalegu lýðræði á Íslandi þar sem það stendur undir nafni. Rannsókn á þróun valds og lýðræðis væri mjög góð byrjun í þeirri vinnu, mjög gott skref í þá átt að efla lýðræðið á Íslandi. Þess vegna flytjum við þessa tillögu nú, að mér sýnist, allur þingflokkur Samfylkingarinnar.