132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[15:48]
Hlusta

Flm. (Hjálmar Árnason) (F) (andsvar):

Ég hygg að ég muni seint standa með hv. þingmönnum Vinstri – grænna enda eru þeirra pólitísku skoðanir nokkuð á skjön við mínar. Það er rétt að hv. þingmaður átti sig á því að þingsályktunartillagan felur það í sér að verið er að leita eftir stefnumörkun Alþingis. Út á það gengur hún og sú stefnumörkun hefur ekki, illu heilli, náð fram að ganga. Það er það sem við erum að kalla eftir, að Alþingi marki sér þá stefnu sem þingsályktunartillagan felur í sér að leggja í ferðasjóð og að útfærðar verði reglur um með hvaða hætti deila eigi út úr þeim sjóði. Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi að líklega við 3. umr. fjárlaga fyrir ári, þá af alkunnri gamansemi kom formaður hans flokks, líklega til að stríða flutningsmönnum þessa. Hins vegar ítreka ég að mikilvægt er að Alþingi móti sér þá stefnu sem þessi þingsályktunartillaga fjallar um og þegar sú stefnumörkun liggur fyrir, sem ég vona að hv. þingmaður styðji og vil ég heyra hann segja nánar um það, þá mun ekki standa á okkur.