132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[15:56]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa því yfir að ég styð þetta mál í sjálfu sér eins og félagi minn hv. þm. Sigurjón Þórðarson. Við erum báðir nátengdir inn í sundhreyfinguna og ég verð áður en ég held áfram að fá að lýsa því yfir að það veldur mér vonbrigðum að sjá að í greinargerð með tillögunni skuli hvergi vera minnst á sundhreyfinguna. Það er mjög alvarlegt mál.

Hins vegar þegar talað er um hvers vegna málið hafi dagað uppi tvisvar og sé komið hingað í þriðja sinn þá vekur það upp ýmsar spurningar. Það vekur athygli mína að einn af flutningsmönnum er hv. þm. Magnús Stefánsson sem einnig er formaður fjárlaganefndar. Hér eru fimm stjórnarþingmenn og einn stjórnarandstæðingur. Málið hefði að sjálfsögðu átt að fljúga í gegn. En það hlýtur að vera einhver ástæða. Mér dettur í hug að ástæðan geti kannski verið sú að þessi þingsályktunartillaga er illa unnin, m.a. vegna þess að í henni kemur hvergi fram hversu mikla peninga er verið að tala um. Mér finnst það nokkuð slæmt mál að hér sé verið að bera fram þingsályktunartillögu í þriðja sinn af stjórnarþingmönnum í miklum meiri hluta þar sem m.a. er formaður fjárlaganefndar, verið er að fara fram á fjárveitingar, peninga af fjárlögum, og að það skuli hvergi nokkurs staðar koma fram í þingsályktunartillögunni eða texta hennar hversu mikla peninga við erum að tala um.

Og þess vegna m.a. kem ég hér upp, virðulegi forseti, bæði til að lýsa því yfir að ég styð þetta mál í sjálfu sér, því þetta er mjög gott mál, en líka til að spyrja flutningsmann, hv. þm. Hjálmar Árnason, hvort menn hafi yfir höfuð eitthvað reynt að slá á tölu um það hversu mikla peninga við erum að tala um, hversu mikil fjárþörfin er og hvort einn flutningsmanna, formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Magnús Stefánsson, hafi ekki einmitt gert athugasemdir við það þegar þingsályktunartillagan var unnin.