132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[15:58]
Hlusta

Flm. (Hjálmar Árnason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hér gætir einhvers misskilnings. Ég vek athygli á því að þetta er þingsályktunartillaga og þingsályktunartillögur miða að því að marka stefnu fyrir Alþingi, að Alþingi marki sér þá stefnu að vilja leggja í ferðasjóð. Það er síðan framkvæmdarvaldsins að taka frekari ákvörðun um það, vinna þá úr því að sjálfsögðu í samráði við íþróttahreyfinguna. Ég tók reyndar dæmi í framsöguræðu minni af ÍBV, handbolta og fótbolta þar. Þar er kostnaður um 30 millj. kr. og svo geta menn velt fyrir sér út frá öðrum félögum hversu mikinn kostnað um er að ræða. Þetta er ekki frumvarp. Frumvörp fela í sér meiri bindingu en við erum hér að leita eftir stefnumörkun Alþingis og ætlum menntamálaráðuneytinu að móta reglur, vinna með íþróttahreyfingunni að því að finna umfangið á kostnaðinum sem er í sjálfu sér tiltölulega auðvelt og ég nefni aftur dæmið frá Vestmannaeyjum um 30 millj. kr. Ég gæti giskað á að við séum að tala um tölur á bilinu 250–300 millj. kr. hið minnsta en ég teldi að þeim peningum væri afar vel varið enda er þetta út frá íþróttalegu sjónarmiði mjög brýnt og ekki síður út frá byggðalegu sjónarmiði.

Hvað varðar formann fjárlaganefndar, hv. þm. Magnús Stefánsson, þá er hann sem þingmaður að flytja málið og tekur þátt í því og með því að vera meðflutningsmaður lýsir hann yfir stuðningi sínum við þessa stefnumörkun og kallar eftir henni eins og við aðrir flutningsmenn tillögunnar.