132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[16:00]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér höfum við þá tölu. Það er gott. Það var nú ekki meira mál en svo að hv. þingmaður Hjálmar Árnason gat komið með tölu, 250–300 millj. kr. Það er mjög gott mál. Þá vitum við það.

Ég veit að sjálfsögðu að þetta er þingsályktunartillaga. En ég tel samt sem áður að það hefði átt að fylgja með í greinargerð hvaða upphæðir við erum hér að ræða um. Ef það hefði legið á borðinu hygg ég — ég trúi ekki öðru reyndar því að þetta er svo gott mál og ágætir þingmenn standa að því þó að reyndar vanti þingmenn Frjálslynda flokksins sem hefðu eflaust lagt þessu máli gott lið í nefndum — ég trúi ekki öðru en að ef þessu hefði fylgt einhver tala þá hefði þetta mál komist miklu lengra og mjög sennilega fengið brautargengi.