132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[16:50]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér litla tillögu til þingsályktunar um að skipuð verði nefnd til að skoða kosti og galla á færeyska fiskveiðistjórnarkerfinu. Nú er það einu sinni svo að það hlýtur að vera hygginna manna háttur að skoða eins og mögulegt er reynslu annarra af mismunandi kerfum þegar leysa á verkefni, hvort sem um er að ræða verkefni á sviði fiskveiðistjórnar eða einhverju öðru sviði. Við vitum öll sem erum hér í þingsalnum að það hafa verið miklar deilur um hið íslenska kerfi og oft á tíðum hafa komið upp umræður og samanburður um hvort ekki væri rétt fyrir okkur að horfa til þess kerfis sem frændur vorir í Færeyjum nota til að stýra fiskveiðum. Sú umræða hefur í raun og veru aldrei farið mjög langt eða mjög djúpt. Hér hafa menn verið að rífast, bæði í sölum Alþingis og eins í fjölmiðlum, um hvort færeyska kerfið verndi nægilega fiskstofna, hvort það bjóði upp á nægjanlega hagkvæmni í veiðum og vinnslu, tryggi jafnt og öruggt flæði af hráefni til vinnslunnar o.s.frv.

Sem einn af flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu, ásamt hv. þingmönnum Magnúsi Þór Hafsteinssyni og Guðjóni A. Kristjánssyni, finnst mér einfaldlega tími til kominn að við reynum að kafa aðeins dýpra í umræðu um sjávarútvegsmál og stjórn fiskveiða og hættum að rífast á tiltölulega yfirborðskenndum nótum um kerfið hér og kerfið þar ef við höfum ekki gögn í höndum sem sýna okkur nákvæmlega hvernig þessi kerfi virka, hverjir eru kostir þeirra og gallar. Þessi tillaga fjallar um að skoðaðir verði bæði kostir og gallar kerfisins, en miðað við hvernig útgerðarmenn og hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hér tala þá draga þeir aðallega upp að kerfið í Færeyjum sé stórgallað. Þess vegna hlýtur að vera mjög mikilvægt fyrir okkur sem tökum þátt í sjávarútvegsumræðu á Íslandi að fram fari alvöru óháð skoðun á því hvort þetta kerfi sé eins gallað og margir hagsmunaaðilar vilja vera láta eða hvort kostir þess séu eins miklir og þeir sem vilja taka það upp vilja vera láta.

Við þingmenn sem eigum sæti í sjávarútvegsnefnd höfum orðið varir við að fjöldi erlendra aðila hefur áhuga á því að fá upplýsingar um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið. Þeir koma hingað, hitta menn að máli, velta fyrir sér hver reynslan sé af því kerfi sem við erum með núna, hverjir séu helstu kostir og gallar, eru sem sagt í ferð til að leita sér upplýsinga um hvernig okkar kerfi virki. Þeir segja okkur oft á tíðum að þeir þurfi að taka á sínum málum, þeir þurfi með einhverjum hætti að geta farið að nýta fiskstofna sína með sjálfbærum hætti eins og kallað er. Þeir fara um og leita eftir reynslu annarra sem hafa haft einhverja stjórn á fiskveiðum sínum til lengri tíma. Sama eigum við að gera. Við eigum ekki bara að sitja hér og rífast um hvort okkar kerfi sé gott eða slæmt, hvort það sé til bölvunar eða bóta. Að sjálfsögðu eigum við ekkert síður að leita okkur upplýsinga um hvernig mönnum gengur annars staðar, af hverju menn hafa tekið upp tiltekin kerfi, hvernig þau virka o.s.frv.

Heimskt er heimaalið barn, segir einhvers staðar og það er mikið til í því orðtaki. Ég held líka að það gæti orðið til að draga úr deilum hjá okkur ef menn vildu horfa aðeins út fyrir landsteinana og sjóndeildarhringinn og bera saman í fullri alvöru það kerfi sem við höfum komið okkur upp hér, með öllum þeim göllum sem á því eru, og kerfi sem menn hafa komið upp annars staðar og a.m.k. sumir hverjir álíta að hafi gengið betur en hjá okkur.

Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu. Ég held að það sé full ástæða til að þessi skoðun fari fram. Hér er talað um að í þessa nefnd fari fulltrúar frá hverjum þingflokki á Alþingi, það komi fulltrúar frá Háskóla Íslands og sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri, frá sjávarútvegsráðherra og að ráðherra skipi formann nefndarinnar. Samkvæmt þessari þingsályktunartillögu er nefndinni gefinn tiltölulega knappur tími til að skoða þessi mál og það er eðlilegt því að forsendur breytinga geta verið miklar í sjávarútvegi eins og öðrum iðnaði og ég tala nú ekki um iðnað sem byggir á náttúruauðlindum og breytingum í náttúrunni, þá þýðir ekkert að vera að skoða þetta yfir mjög langt tímabil. Menn verða að gefa sér tiltölulega knappan tíma og vinna hratt og skoða þetta þannig að hægt sé að bera saman hvernig kerfin virka á sama tíma á báðum stöðum.

Vonandi kemst þessi tillaga til þingsályktunar í gegnum sjávarútvegsnefnd tiltölulega hratt og vel. Ég sé ekki alveg fyrir mér, þó að flutningsmenn séu ekki nema þrír, af hverju einhverjir fulltrúar hér á Alþingi ættu að hafa á móti því að skoða kosti og galla annars kerfis en þess sem við erum með. Ég get ekki í raun áttað mig á því að þannig geti farið vegna þess að við hljótum að vilja í fullri einurð og hreinskilni skoða kerfi sem aðrir nota og átta okkur á því í sameiningu hvort kerfið gæti hentað okkur. En eins og 1. flutningsmaður, hv. þingmaður Magnús Þór Hafsteinsson, sagði þá fer þetta nú í nefnd til umræðu og ég treysti því að þar muni menn vinna hratt og vel og koma þessu hér inn aftur þannig að hægt sé að skipa í þessa nefnd.